Dr. Ottó Elíasson hefur verið ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri hjá Eimi.
Eimur er samstarfsverkefni um bætta nýtingu auðlinda og aukna græna nýsköpun á Norðurlandi eystra. Að verkefninu standa Landsvirkjun, Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Ottó er eðlisfræðingur og útskrifaðist með BSc gráðu frá Háskóla Íslands 2012, og með doktorsgráðu í atómeðlisfræði frá Árósarháskóla í Danmörku 2020. Hann hóf störf hjá Eimi sumarið 2020, og tók við sem rannsókna- og þróunarstjóri í september það ár. Hjá Eimi hefur Ottó leitt sókn í innlenda og erlenda styrktarsjóði og tekið þátt í innlendum og erlendum rannsókna- og þróunarverkefnum.
„Það eru mikil færi á því að gera betur hér á landi þegar kemur að umhverfis-, loftslags-, og auðlindamálum. Eimur er kjörinn vettvangur til að hafa mikil áhrif á þessa málaflokka og ég er viss um að við getum hraðað orkuskiptum og innleiðingu hringrásarhagkerfis, sérstaklega með þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Ég er sæll með að vera treyst fyrir þessu starfi“, segir Ottó Elíasson.
„Ottó hefur sýnt af sér mikla fagmennsku og hæfni í þeim störfum sem hann hefur sinnt innan Eims síðastliðin ár og því er mikil ánægja að fá hann til að leiða Eim áfram í komandi verkefnum. Sérstök áhersla verður lögð á sókn í Evrópusjóði á næstu þremur árum og stjórn Eims telur Ottó hafa gríðarlega góða innsýn og lausnamiðaða nálgun sem mun koma verkefninu vel á næstu árum og tryggja áframhaldandi vöxt og rekstrargrundvöll Eims“, segir Kjartan Ingvarsson, stjórnarformaður.
Ottó hefur störf sem framkvæmdastjóri þann 15. október næstkomandi. Starfið var auglýst þann 24. ágúst s.l. og voru fjórtán umsækjendur um starfið.
Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang í Reykjavík.
Mynd/aðsend