Skíðafélag Ólafsfjarðar hefur fjárfest í nýjum búnaði sem gerir félaginu kleift að sýna stöðu skíðagöngubrauta í Ólafsfirði í rauntíma. Um er að ræða GPS-tæki sem skráir upplýsingar beint inn á vefsvæðið skidaspor.net, þar sem hægt er að fylgjast með stöðu og nýtingu brauta á vegum félagsins.
Fram kemur á heimasíðu Skíðafélags Ólafsfjarðar, skiol.is, að búnaðurinn sé nú prófaður í fyrsta skipti og að fyrstu prófanir lofi mjög góðu. Með þessari lausn ættu upplýsingar um stöðu skíðagöngubrauta á svæðinu ávallt að liggja fyrir á rauntíma, sem auðveldar skíðagöngufólki að átta sig á aðstæðum hverju sinni og skipuleggja ferðir sínar betur.
Með tilkomu nýja búnaðarins styrkir félagið enn frekar upplýsingagjöf sína til iðkenda og annarra áhugasamra og eykur aðgengi að áreiðanlegum og uppfærðum upplýsingum um skíðagöngu í Ólafsfirði.
Mynd: Skjáskot af skidaspor.net. Gönguspor Skíðafélags Ólafsfjarðar birtast á korti í rauntíma með nýjum GPS-búnaði. Grænar línur sýna nýlega unnin spor á svæðinu.



