Í vikunni var nýr hlaupahjóla- og hjólabrettavöllur, „Park“, formlega tekinn í notkun á Dalvík. Völlurinn er staðsettur milli Víkurrastar og Dalvíkurskóla og var opnaður með sýningu þar sem hópur hjólabretta- og hlaupahjólamanna sýndi listir sínar í blíðskaparveðri. Margir nýttu jafnframt tækifærið til að prófa hjólabretti í fyrsta sinn.
Völlurinn er hannaður og smíðaður af Eiríki Helgasyni, eiganda Braggaparksins á Akureyri og einum fremsta hjólabrettamanni landsins. Hann er talinn vera meðal þeirra flottari á landinu og hefur þegar notið mikilla vinsælda meðal barna og ungmenna, bæði í skólanum og utan hans.
Framkvæmdin er talin mikill ávinningur fyrir samfélagið, þar sem hún bætir við fjölbreytta afþreyingu og stuðlar að aukinni hreyfingu og samveru íbúa sveitarfélagsins.

