Frá bæjarstjóra – Breyttar reglur um birtingu gagna

Þann 11. júní sl. samþykkti bæjarstjórn breyttar reglur um birtingu gagna með fundargerðum, tel ég rétt að fara aðeins yfir það í hverju umræddar breytingar felast. 

Í grunnin eru reglurnar birtingarmynd þeirrar stefnu Fjallabyggðar að stjórnsýsla bæjarins sé opin og að bæjarbúar geti með einföldum hætti fylgst með störfum bæjarstjórnar og nefnda. Reglunum er ætlað að auka aðgengi íbúa að gögnum sem að baki ákvörðunum liggja eftir því sem lög og reglugerðir heimila. 

Meginbreytingin frá fyrri reglum er að nú skal ætíð birta með fundargerðum öll gögn sem fylgdu fundarboði eða lögð voru fram á fundi, þ.m.t. erindi frá einstaklingum en að frátöldu eftirfarandi: 

(i)    Gögn um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, fyrirtækja og lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. 
(ii)   Bréfaskipti við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. 
(iii)  Vinnuskjöl og innri minnisblöð til eigin nota. 
(iv)  Samninga við aðra en lögaðila, opinbera aðila, félagasamtök og styrktaraðila, nema fyrir liggi samþykki samningsaðila en meginefni samninga skal þó koma fram í texta fundargerðar.
(v)   Gögn er tengjast málefnum einstakra starfsmanna. 
(vi)  Gögn sem teljast trúnaðarmál og varða einkamálefni eða fjárhagsmálefni einstaklinga, fyrirtækja og annarra lögaðila. 
(vii) Gögn sem þagnarskylda skal gilda um. 

Óski einstaklingur eftir því að erindi hans verði ekki birt skal sú ósk sett fram formlega og með rökstuddum hætti, á því er tekið skv. eftirfarandi upptalningu um gögn sem ekki er skylt að birta: 

(i) Gögn sem málsaðili leggur fram rökstudda beiðni um að verði ekki birt. 
(ii) Gögn er varða tillögur eða viðræður við ríkið um fjárhagsmálefni sveitarfélaga.
(iii) Gögn er varða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sveitarfélagsins. 
(iv) Önnur gögn sem falla undir undanþáguákvæði upplýsingalaga. 

Einnig er í breyttum reglum leitast við að skýra verklag við ákvarðanatöku um birtingu gagna ásamt því að sett er inn grein um persónuvernd og viðbrögð við birtingu gagna fyrir mistök. 

Það er von mín og kjörinna fulltrúa að með breyttum reglum aukist möguleikar íbúa á að fylgjast með þeim málum sem eru á borði bæjarstjórnar, ráða og nefnda sem og að auðveldara verði fyrir íbúa að setja sig inn í ástæður ákvarðana sem teknar eru. 

Breyttar reglur um birtingu gagna með fundargerðum má nálgast hér 

Elías Pétursson,
bæjarstjóri

Forsíðumynd: Ingvar Erlingsson