Þrátt fyrir að útgáfa geisladiska hafi dregist verulega saman á allra síðustu árum, er greinilega ekki öll nótt úti enn því nýr geisladiskur með mjög sterku siglfirsku ívafi er væntanlegur núna í júlíbyrjun. Hann inniheldur 23 lög eftir Leó R. Ólason sem á einnig flesta textana.
Fjöldi landsþekktra flytjenda leggur honum lið og má þar nefna Siglfirsku söngvarana Evu Karlottu Einarsdóttur, Róbert Óttarsson, Rafn Erlendsson og Hlöðver Sigurðsson.
Svo eru þarna líka nöfn eins og Jóhann Helgason, Herbert Guðmundsson, Guðrún Gunnars, Arnar Freyr Gunnarsson sem hlaut látúnsbarkatitilinn árið á eftir Bjarna Ara, Rakel María Axelsdóttir, en faðir hennar er gamli popparinn Axel Einarsson sem m.a. samdi “Hjálpum þeim” á sínum tíma.
Þá er þarna samstarfskona frá tíunda áratugnum Þuríður Sigurðardóttir, Ari Jónsson úr Roof Tops, Haukur Hauksson sem er reyndar bróðir Eiríks Haukssonar, Guðmundur Hermannsson sem er faðir básúnuleikarans og söngvarans Valdimars og bróðir Karls Hermannssonar sem var fyrsti söngvari Hljóma, og ekki má gleyma trúbadúrnum góðkunna Sigga Björns frá Flateyri sem nú starfar í Berlín, auk þess sem Leó kemur einnig sjálfur nokkuð við sögu.
Þá er þarna einnig að finna nöfn þekkta hljóðfæraleikara sem hafa starfað með hljómsveitum á borð við Mezzoforte, Stuðmenn, Papana, Start, Eik, o.fl.
En það á að gera meira en gefa út disk, því að í nýliðinni viku var Leó á Siglufirði ásamt myndatökumanni að skjóta myndefni í tvö tónlistarmyndbönd. Í öðru þeirra syngur Rafn Erlendsson lagið Nornadans, en í hinu syngja þau Eva Karlotta og Róbert Óttarsson dúett í syrpu af eldri lögunum sem flestir Siglfirðingar ættu að kannast við. Áður var búið að gera myndband með þeim Hlöðver Sigurðssyni og Guðmundi Hermannssyni við nýtt lag.
Upptökurnar eru gerðar á tímabili sem spannar u.þ.b. aldarfjórðung, en fyrstu lögin voru tekin upp kring um 1995, en þau yngstu aðeins örfáum vikum fyrir þessa útgáfu. Svo var líka eitthvað um að gömlu upptökurnar sem stóðust misvel tímans tönn voru endurgerðar að hluta aða öllu leyti.