Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur ráðið Unni Valborgu Hilmarsdóttur í starf sveitarstjóra til næstu fjögurra ára.

Unnur er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands (MPA), B.Ed. próf frá Kennaraháskóla Íslands, viðbótardiplomu í rekstri og stjórnun frá EHÍ.

Hún hefur undanfarin fjögur ár starfað sem framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Þar áður var hún oddviti sveitarstjórnar í Húnaþingi vestra. Hún starfaði um árabil við ráðgjöf og námskeiðahald, í eigin fyrirtæki og hjá Dale Carnegie á Íslandi.

Gert er ráð fyrir að Unnur taki til starfa í september.

Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynda meirihluta sveitarstjórnar Húnaþings vestra. Framsóknarflokkur fékk þrjá menn kjörna í sveitarstjórn í kosningunum í maí, en Sjálfstæðisflokkur tvo. Í minnihluta er N-listi sem fékk tvo menn kjörna. Þorleifur Karl Eggertsson, Framsóknarflokki, er oddviti sveitarstjórnar en Magnús Magnússon, Sjálfstæðisflokki er formaður byggðarráðs.

Mynd/Húnaþing vestra