Fundur íbúa við þjóðveg 711 (Vesturhóp og Vatnsnes Húnaþingi vestra) 31. október 2018.

Tildrög fundar þessa var að fara yfir hverju fyrri fundur hefur skilað, skiptast á skoðunum og undirbúa væntanlegan fund með samgönguráðherrra, fulltrúum vegagerðar, sveitarstjórn Húnaþings vestra og hugsanlega fleirum. Áætlað er að sá fundur verði 14. nóvember n.k. Mæting á fundinn var mjög góð og sýnir áhyggjur íbúa af stöðu mála. Fulltrúar frá sveitarstjórn mættu á fundinn og eins framkvæmdastjóri sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Helstu niðurstöður fundarins eru þessar.

1. Engin viðbrögð þingmanna kjördæmisins við ályktun fyrri fundar vekja athygli og undrun fundarmanna. Eins hefði verið ánægjulegt að sjá meiri viðbrögð ferðaþjónustuaðila og félagasamtaka í heimabyggð.

2. Þjóðvegur 711 er enn afleitur víða (þrátt fyrir heflun) og á vestanverðu Vatnsnesi er enn 30 km hámarkshraði á hluta vegarins og þar hafa engar umbætur átt sér stað hvað sem veldur.

3. Fram kom í máli fundarmanna að þeir hafi á ferðum sínum um landið í sumar hvergi séð veg sem er nærri eins lélegur og þjóðvegur 711. Eins kom fram að miklu hreinni ofaníburður virðist tíðkast annars staðar en í Húnaþingi vestra.

4. Þjóðvegur 711 er miklu fjölfarnari en sambærilegir vegir á Íslandi og eins kom fram að hlutfall malarvega er mjög hátt á okkar svæði í samanburði við önnur. Þrátt fyrir það hafa þeir verið vanræktir árum saman og eru þess vegna orðnir ónýtir eða þar um bil.

5. Á árum áður var þjóðvegur 711 oft þokkalegur en eftir gríðarlega fjölgun ferðamanna sem heimsækja svæðið er vegurinn orðinn afleitur allt árið, enda viðhald lítið sem ekkert.

6. Fram kom hjá bílaviðgerðarmanni sem var á fundinum að viðhaldskostnaður bíla á svæðinu hefur hækkað mjög mikið á síðustu árum og bremsubúnaður, höggdeyfar og aðrir slitfletir endast eingöngu í stuttan tíma miðað við eðlilegt ástand. Þetta kemur ekki síst niður á þeim sem aka til og frá vinnu, skólabílum, póstbíl og öðrum þjónustuaðilum.

7. Enn eru börn að kasta upp í skólaakstri vegna hristings og eins er hávaði inni í bílum mun meiri þegar þeir skella ofan í holur vegarins. Ferðatími til og frá skóla hefur lengst mikið vegna ástands vegarins. Þetta veldur skólabörnum svo miklu álagi að ekki verður búið við til lengdar. Rætt var um að sennilega væri þess ekki langt að bíða að foreldar hætti að senda börn í skólann. Sú ráðstöfun yrði þá á ábyrgð stjórnvalda.

8. Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur lagt sitt af mörkum til að ná eyrum ráðamanna og eins framkvæmdastjóri sambands sveitarfélaga á svæðinu og eiga þessir aðilar þakkir skildar fyrir það.

9. Væntanlegur fundur með samgönguráðherra og fulltrúum vegagerðar vekur bjartsýni fundarmanna um að nú eigi í alvöru að fara í aðgerðir sem bæta muni þjóðveg 711 til framtíðar, enda sé búseta á svæðinu í veði.

10. Ein þekktasta og vinsælasta bók 20. aldar, Sagan hans Hjalta litla, hefst á þessum orðum: “Enn erum við að flytja”. Í þessum orðum felst vonleysi þess sem litlu ræður og er háður tíðarandanum og duttlungum þeirra sem betur mega sín. Þetta er svolítið að verða saga þeirra sem búa við þjóðveg 711 og hefur verið um alllangt skeið. Vonandi þarf enginn að flytja á brott en það er alveg ljóst að ef ekki verða gerðar verulegar umbætur í vegamálum á svæðinu munu einhverjir fara að hugsa sér til hreyfings, ekki síst ungt fólk með börn. Ef til kæmi væri það í boði stjórnvalda og ósköp verður þá hjal stjórnmálamanna um að það þurfi að halda öllu landinu í byggð, hjáróma og lítt trúverðugt.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar

Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir