Veðurstofa Íslands hefur sett í loftið fyrsta áfanga nýrra vefsíðna fyrir snjóflóðaspár. Um er að ræða nýjasta skrefið í heildarendurnýjun á vef stofnunarinnar, með það að markmiði að bæta aðgengi að upplýsingum og framsetningu þeirra.

Snjóflóðasíðurnar eru enn í þróun og leggur Veðurstofan ríka áherslu á að fá ábendingar frá notendum til að geta áfram þróað og bætt þjónustuna. Á nýju síðunum er meðal annars að finna hallakort, sameinaða kortasýn fyrir spár og nýleg snjóflóð, auk þess sem almenningi gefst kostur á að tilkynna um snjóflóð sem hafa fallið.

Á næstu misserum er áformað að bæta við frekari gögnum og upplýsingum, þar á meðal um snjólag, úrkomu og mælingar frá fjallaveðurstöðvum.

Veðurstofan hvetur alla sem nýta sér snjóflóðaspár til að kynna sér nýju síðurnar og senda ábendingar og athugasemdir á netfangið nyrvefur@vedur.is. Stefnt er að því að birta uppfærða útgáfu af snjóflóðasíðunum snemma á komandi ári.

Nýju snjóflóðasíðurnar má nálgast á vefnum gottvedur.is/snjoflod og nánari umfjöllun um virkni síðunnar er að finna á heimasíðu Veðurstofunnar.

Mynd: Veðurstofan