Fjóla Björnsdóttir hefur verið ráðin í stöðu yfirlæknis nýrrar sameiginlegrar starfsstöðvar Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) í Fjallabyggð og á Dalvík.

Fjóla mun taka við starfinu 1. september nk. og vera með aðstöðu á báðum starfsstöðvum. 

Fjóla útskrifaðist úr læknisfræði frá háskólanum Nuestra Senora de La Paz í Bólivíu árið 2000, lauk hæfnisprófi í lyf- og skurðlækningum frá Háskóla Íslands árið 2002, stundaði sérnám í taugalækningum í eitt ár við Háskóla Íslands og lauk sérfræðiréttindum til heimilislækninga frá sama skóla árið 2015. 

Fjóla hefur langa og mikla reynslu að baki í heilbrigðisgeiranum. Á árunum 2003-2006 starfaði Fjóla sem héraðslæknir á Djúpavogi hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, 2006-2007 sem deildarlæknir/sérnámslæknir á taugadeild hjá Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg, læknir/sérnámslæknir hjá HSN Dalvík árin 2009-2015 ásamt því að hafa starfað einnig á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) sem læknir/sérnámslæknir á árunum 2013-2015. Árin 2015-2022 starfaði Fjóla sem sérfræðingur í heimilislækningum hjá HSN Dalvík, sérfræðilæknir á endurhæfingar- og öldrunardeild SAk 2023-2024 og sem sérfræðilæknir á geðsviði hjá SAK 2024-2025.  

Fjóla er búsett á Dalvík ásamt fjölskyldu sinni. 

Mynd/aðsend