Ást og uppreisn er þema tuttugustu þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði.

Hún verður haldin dagana 3. – 7. júlí 2019 og koma listamenn frá Bandaríkjunum, Noregi, Þýskalandi og Finnlandi fram á hátíðinni auk fjölmargra íslenskra listamanna.

Á meðal flytjenda eru Gyða Valtýsdóttir tónskáld sem nýlega var tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari, þjóðlagasveitin Umbra og bluegrasshljómsveitin Strá-kurr. Frá Noregi koma góðir gestir. Þjóðlagasveitin Felaboga leikur saknaðarsöngva norskra innflytjenda í Bandaríkjunum og söngkonan Johanna Zwaig og fiðluleikarinn Ragnar Heyerdahl leika og syngja ástar- og baráttusöngva úr öllum heimshornum.

Ný íslensk kórtónlist verður flutt af kórnum Klið, en hann er einkum skipaður söngelskum tónskáldum. Vikivakadansar verða kenndir og slegið verður upp bandarísku sveitaballi. Þá leikur Steiney Sigurðardóttir sellókonsert Dvoraks með Sinfóníuhjómsveit unga fólksins á tónleikum í Siglufjarðarkirkju undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar, listræns stjórnanda hátíðarinnar.

Námskeið verða haldin fyrir fólk á öllum aldri. Fyrst ber að nefna Þjóðlagaakademíuna þar sem íslensk og erlend þjóðlagatónlist er kennd. Á stökum námskeiðum kennir Jelena Ćirić serbneska þjóðlagatónlist, bandaríski söngvarinn Paul Kirby heldur námskeið í bandarískri bluegrasstónlist og Tómas Manoury opnar heim yfirtónasöngs fyrir gestum hátíðarinnar. Örlygur Kristfinnsson heldur námskeið um húsin á Siglufirði og loks stendur Anna Jónsdóttir söngkona fyrir þjóðlaganámskeiði fyrir börn á aldrinum 5-11 ára.

 

Aðsent