Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að háloftaspákort sýni tvo kuldapolla sem vissara er að fylgjast grannt með. Eiginlega er líklegt að þeir fari báðir í grennd við landið.

Sá sem nú er við Svalbarða stefnir ákveðið til suðurs og rennir sér hér fram hjá til suðurs, sennilega skammt fyrir austan land. Líklegast sleppum við það að hann fari beint yfir landið. Það breytir ekki því að reiknað er með dramatískum breytingum í hita yfir helgina, einkum norðan- og austanlands. Á Hallormsstað var hvað hlýjast í dag og áfram á morgun, en spáð niður fyrir 5 stigin á sunnudag!

Sá yfir V-Grænlandi kemur um síðir yfir jökulinn og sennilega stefnir hann líka fram hjá á þriðjudag, 2. júlí. eða miðvikudag. Viðheldur þannig norðanstæðum vindi yfir landinu. GFS spáin Bandaríska sem Blikuspáin byggir á, gerir ráð fyrir að kaldasti kjarninn komi beint að Vesturlandi og fari austur yfir landið. Evrópska spáin segir 20-30% líkur, en þarna má litlu skeika.

Fari hann beint yfir má reikna með 4 til 7 stiga hita á landinu og þungbúnu og vætu annars staðar en norðaustantil. Snjóar þá líklega á jöklum og hærri fjöllum.

Sjá: Blika.is