Valgerður Ósk Einarsdóttir er dönskukennari við Menntaskólann á Tröllaskaga og Fjölbrautaskóla Snæfellinga en býr í Borgarnesi. Í báðum skólunum er lögð áhersla á vendikennslu og fjölbreytt notkun upplýsingatækni gerir kennurum kleift að sinna starfinu með öðrum hætti en áður var.

Í MTR hefur fjarnemum í námshópum fjölgað og staðnemum fækkað. Nemendur búa víða um land og nokkrir erlendis. Kennsluaðferðir með áherslu á vendikennslu henta báðum hópum og lögð er áhersla á að tryggja að allir nemendur hafi aðgang að sömu upplýsingum. Valgerður Ósk flutti frá Ólafsfirði í Borgarnes síðasta vor. Ákveðið var að hún kenndi áfram dönsku í MTR, sem fjarkennari, til reynslu í vetur. Síðan sótti hún um og fékk hlutastarf dönskukennara í FSN í Grundarfirði. Meirihluti nemenda eru staðnemar þar en hluti er í deild skólans á Patreksfirði. Valgerður hefur farið nokkrum sinnum í Grundarfjörð í haust til að hitta nemendur og leiðbeina þeim með vinnubrögð og aðferðir við fjarnámið. Hún hefur einnig komið til Ólafsfjarðar og hitt staðnema hér.

Á myndinni stendur Valgerður Ósk á milli þeirra Hrafnhildar Hallvarðsdóttur, skólameistara FSN og Láru Stefánsdóttur, skólameistara MTR. Hún lætur vel af því að þjóna þessum tveimur frúm, en hún hefur raunar starfað með báðum árum saman.

 

Frétt og mynd: MTR