Of hátt kadmíum í einni áburðartegund hjá Líflandi ehf.
Við sýnatöku Matvælastofnunar í vor mældist kadmíum í áburðartegundinni LÍF 26-6+Se vera um 90 mg/kg fosfórs sem er yfir leyfilegu hámarki sem er 50 mg/kg fosfórs. Tæplega 200 tonn voru flutt inn af þessari tegund og búið var að dreifa henni til bænda og á tún þegar þetta uppgötvaðist. Aðrar áburðartegundir frá Líflandi stóðust allar mælingar.
Þessi áburðartegund er því tekin af skrá Matvælastofnunar, sem þýðir að fyrirtækið má ekki dreifa henni til notenda fyrr en það hefur skráð hana hjá Matvælastofnun, og stofnunin tekið sýni af henni og látið efnagreina og þær geiningar gefið gildi fyrir kadmíum undir leyfðum mörkum.
Um 50 sýni voru tekin af áburði í vor og var þetta eina sýnið þar sem kadmíum var yfir mörkum.