Hljómsveitin Of Monsters and Men er komin aftur á sjónarsviðið með nýtt lag sem ber heitið Ordinary Creature.

Lagið sem komið er í spilun á FM Trölla, var tekið upp í hljóðveri sveitarinnar hér á Íslandi og að sögn hljómsveitarmeðlima „fjallar um þá þrá að vakna til lífsins á ný eftir hálfgerðan dvala.“

Lagið á Spotify

Erlendur Sveinsson leikstýrði myndbandi við lagið, sem fangar kyrrðina sem fylgir íslenskri sumarnóttu. „Við vorum afskaplega heppin að fá þennan fallega bíl lánaðan og gátum þar með tekið rúntinn um Selvog. Gatan frá kirkjunni að bæjarmörkum markar lengd lagsins – þetta er í raun gamli góði rúnturinn seint að kvöldi, með þeirri þreytu og ‘melankólíu’ sem honum fylgir,“ segir sveitin.

„Okkur fannst mikilvægt að spilagleðin skilaði sér og lögðum mikið upp úr því að ná ‘kemistríunni’ milli okkar,“ segir Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, söngkona og lagahöfundur sveitarinnar.


Tónleikaferð um Norður-Ameríku

Samhliða útgáfu nýrrar plötu hefur hljómsveitin tilkynnt umfangsmikla tónleikaferð um Norður-Ameríku í október og nóvember. Meðal helstu viðkomustaða eru Brooklyn, Los Angeles, Chicago, Boston, Nashville, og Mexico City.

Með í för verður ísfirska tónlistarkonan Árný Margrét, sem kemur fram á öllum tónleikunum.

Um hljómsveitina

Of Monsters and Men stigu sín fyrstu skref á heimsvísu árið 2011 með plötunni My Head Is An Animal, sem hefur nú verið streymt yfir 2,5 milljarð sinnum á Spotify. Bandið á fjölda tónleikaferðalaga að baki, auk þess að hafa spilað á stærstu hátíðum heims, þar á meðal Coachella, Glastonbury og Lollapalooza.

Árið 2015 kom út platan Beneath the Skin, sem náði 3. sæti á Billboard 200 listanum, og Fever Dream fylgdi í kjölfarið árið 2019 og náði hún 9. sæti á sama lista. Þegar heimsfaraldur setti svip sinn á heiminn allan tók sveitin upp heimildarmyndina Tíu, þar sem leikstjórinn og Íslandsvinurinn Dean Debois fylgdi þeim eftir á ýmsa staði á Íslandi sem höfðu tilfinningaleg og söguleg gildi fyrir meðlimi hljómsveitarinnar.

Myndin var frumsýnd á Tribeca Film Festival og vann til verðlauna á Dumbo Film Festival árið 2022. Samhliða myndinni kom út samnefnd EP plata með áður óútgefnum lögum úr safni sveitarinnar.

Með Ordinary Creature styrkir Of Monsters and Men enn stöðu sína sem eitt þekktasta tónlistarafl Íslands á heimsvísu.