Ólafsfjörður er blómlegur og fallegur bær.

Óbilandi kjarkur og dugnaður hefur einkennt Ólafsfirðinga gegnum árin en ægifögur náttúran og oft óblíð veðrátta hefur líklegast haft mótandi áhrif á þá sem þar búa og styrkt þá.

Þannig hefst viðtal við Ólafsfirðinginn Björn Þór Ólafsson “Bubba” á vefsíðunni AldurErBaraTala.is

Það má líka segja að Ólafsfjörður hafi verið vagga margra skíðakappa í gegn um tíðina og í dag ætlum við að kynnast honum Birni Þór Ólafssyni (80 ára) íþrótta- og smíðakennara sem jafnan er kallaður Bubbi. Á nýársdag á þessu ári var hann sæmdur riddarakrossinum fyrir framlag til skíðaíþrótta, félagsmála og menningarlífs í heimabyggð. Í honum finnum við þessi sterku persónueinkenni, kjarkinn og dugnaðinn svo vel.

Bubbi og Margrét hittust fyrir tilviljun í Austurstræti, þegar hann var í námi í Reykjavík en hann fór oft niður í bæ á laugardögum og keypti helgarmoggann.

Í eitt skiptið þegar hann var á leiðinni heim flautaði einhver á hann á gömlum jeppa og kallaði til hans. Það var þá strákur sem var með honum á skíðum í Jósefsdal, sem hét Guttormur, hann var með kærustuna sína í bílnum og vinkonu hennar Margréti.

Þar með voru örlögin ráðin og hafa Bubbi og Margrét verið saman meira og minna síðan. Margrét er úr Reykjavík, af  Toft ættinni svokölluðu.

Faðir hennar var danskur kaupmaður sem flutti til Íslands en var giftur þýskri konu, og var því töluð þýska á æskuheimili Margrétar.

Krakkarnir töluðu við mömmu sína á íslensku en hún svaraði á þýsku og þau hjónin töluðu alltaf þýsku við hvort annað.


Viðtalið í heild sem skartar einnig fjölda mynda má finna hér.