Hljómsveitin Brek fær að eiga þáttinn í dag til að kynna fyrir hlustendum plötuna sína sem þau gáfu út seint í fyrra.
Á vefsíðunni brek.is segir:

Brek var stofnuð haustið 2018. Meðlimir sveitarinnar hafa síðan þá leitast við að finna sinn rétta hljóm og gefið sér tíma í þá vinnu.

Áhersla er á að tvinna saman hinum ýmsu áhrifum frá mismunandi stílum þjóðlaga- og dægurtónlistar. Einnig reynir sveitin að finna nýjar og spennandi leiðir við notkun hljóðfæranna til að skapa grípandi og þægilega stemningu, en jafnframt krefjandi á köflum. Lög sveitarinnar eru sungin á íslensku en hún leggur áherslu á að nota fjölskrúðugt orðbragð og nýta þannig hinn mikla og fallega orðaforða sem íslenskan hefur upp á að bjóða.  Lög hljómsveitarinnar sækja innblástur sinn meðal annars í íslenska náttúru og veðrabrigði.  

Brek í Fríkirkjunni

Áhrif tónlistarinnar koma úr ýmsum áttum en Brek vill leitast við að tvinna þeim saman í sinn hljóðheim og leitast þannig við að brjóta niður múra á milli tónlistarstefna ásamt því að tengja íslenskan þjóðlagaarf við aðrar tegundir þjóðlagatónlistar.  Íslenska texta og raddir í bland við samspil rythmísks og dínamísks samtals hljóðfæranna notar Brek til að drífa tónlistina áfram.

Meðlimir hljómsveitarinnar eru:
Guðmundur Atli Pétursson, Harpa Þorvaldsóttir, Jóhann Ingi Benediktsson og Sigmar Þór Matthíasson.
Það verður sem sagt heill klukkutími af nýrri tónlist, kynnt af höfundum og flytjendum laganna í þættinum Tónlistin á FM Trölla kl. 15:00 til 16:00 í dag.


FM Trölli næst á FM 103.7 í Eyjafirði, á Tröllaskaga, í Skagafirði, á Hvammstanga og nágrenni og auðvitað um allan heim hér á vefnum trolli.is.

Á vefsíðu FM Trölla er hægt að hlusta á upptökur af öllum þáttum sem eru á dagskrá stöðvarinnar um þessar mundir.

Hægt er að hlusta á þáttinn út um allan heim með því að smella á hlusta á síðunni eða hér: Hlusta

Minnum sjómenn á hafi úti og aðra með takmörkuð netsambönd á skip.trolli.is

Myndir: Brek.is