Orka náttúrunnar hefur uppfært hraðhleðslustöð sína í Varmahlíð í nýjustu kynslóð hraðhleðslustöðva. Nýja stöðin mun geta boðið allt að 150 kW hleðslu og getur þjónað tveimur bílum í einu sem deila þá aflinu að hámarki 75kW á hvort tengi, en það fer eftir hleðslugetu bílsins.

Eldri stöðin gat hlaðið 50 kW að hámarki og þá aðeins einn bíl í einu.

„Stöðin í Varmahlíð er þriðja stöðin sem við setjum upp í ár.  Þessar nýju stöðvar eru í raun algjör bylting fyrir rafbílaeigendur því nú tekur enga stund að hlaða,“ segir Hafrún Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri hleðslunets ON og segir að hraðhleðslustöðin í Varmahlíð muni bjóða uppá tvö CSS tengi og eitt Chademo.  Fyrst um sinn verður aflið í Varmahlíð þó takmarkað við 138 kW þar sem leggja þarf aflmeiri heimtaug að stöðinni en vonast er til að það leysist sem fyrst.

Á sjötta tug hraðhleðslustöðva ON hringinn í kringum landið:

„Við höfum þegar pantað tíu 150 kW hraðhleðslustöðvar sem við stefnum á að setja upp í ár og næsta ári en Covid 19 setti stórt strik í reikninginn og seinkaði afhendingum verulega,“ segir Hafrún.

Árið 2014 hóf ON uppbyggingu innviða fyrir rafbíla þegar fyrsta hraðhleðslan var opnuð við Sævarhöfða í Reykjavík. Þessi uppbygging er liður í þeirri stefnu fyrirtækisins að vera í fararbroddi í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi.

ON rekur stærsta hraðhleðslunet landsins og eru stöðvarnar vel á sjötta tug talsins. Áhersla er lögð á að þétta og bæta hraðhleðslunetið til að þjóna rafbílaeigendum sem allra best.



Til gamans má geta þess að til að fá jafn mikla orku þyrfti um 1.000 fermetra af sólar sellum á sólríkum degi á Kanaríeyjum.