Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér eftirfarandi orðsendingu:

Nú er Fiskidagurinn mikli á næsta leiti og undirbúningur vegna hans búinn að vera á fullu síðustu vikur og mánuði. Fiskidagurinn er nú haldinn eftir þriggja ára hlé og er þetta tuttugasti Fiskidagurinn sem haldinn er hátíðlegur. Fiskidagurinn mikli hefur þróast og stækkað að umfangi gegnum árin og dregið að sér sífellt fleiri gesti.

Áætlað er að um 30 þúsund manns hafi sótt hátíðardagskrána 2019. Fyrir bæjarfélag sem telur innan við 2000 manns, er það því augljós áskorun að taka vel á móti svo mörgum gestum.

Þeir sem koma að öryggismálum og skipulagningu hafa getað sótt í reynslu fyrri ára og kappkostað er að haga málum þannig að hlutirnir gangi sem best fyrir sig.

Nú er búið að skilgreina tjaldsvæði, bílastæði, lokanir á svæðum og umferðarskipulag fyrir helgina.

Við bendum á að á heimasíðu Fiskidagsins, https://www.fiskidagurinnmikli.is/ er mikið af gagnlegum upplýsingum.

Sumir mæta á tjaldsvæðin nokkrum dögum fyrir sjálfan Fiskidaginn. Tjaldsvæði hafa verið skipulögð á svæðinu kringum knattspyrnuvöllinn sem er á vinstri hönd þegar ekið er inn í bæinn úr suðri (sjá svæði nr. 6 og 7 í Fiskidagsblaðinu eða á heimasíðu Fiskidagsins). Starfsmenn munu raða inn á svæðin og minnt er á að það er 20 ára aldurstakmark á tjaldsvæðum á Dalvík í Fiskidagsvikunni (nema í fylgd með forráðamönnum að sjálfsögðu).

Á laugardeginum á Fiskidagshelginni sjálfri verða settar upp umferðarlokanir kringum hátíðarsvæðið og skilgreind akstursleið gegnum bæinn. Við gerum nánari grein fyrir því í annarri færslu þegar nær dregur.

Við vonum að allir gestir Fiskidagsins skemmti sér vel og fallega og það er ekki úr vegi að rifja upp boðorð Fiskidagsins sem eru:

Við göngum vel um

Við virðum hvíldartímann

Við virðum náungann og umhverfið

Við verjum Fiskdeginum mikla saman

Við virðum hvert annað og eigur annara

Við virðum útivistarreglur unglinga og barna

Við erum dugleg að knúsa hvert annað

Við beygjum okkur 2 sinnum á dag eftir rusli

Við förum hóflega með áfengi og virðum landslög.

Við hjálpumst að við að halda Fiskidagsboðorðin.

Hvernig væri svo að fá smá Tröllaskagafíling með því að stilla á FM Trölli á 103,7 MHz.