Laugardaginn 21. mars úthlutaði mennta- og menningarmálaráðherra úr aðalúthlutun safnasjóðs 2020. Síldarminjasafnið hlaut þrjá verkefnastyrki sem og öndvegisstyrk til áframhaldandi uppbyggingar Salthússins og nema styrkirnir samtals tuttugu milljónum króna.

Rausnarlegum styrk til Salthússins verður varið til gerðar nýrrar grunnsýningar á Salthúsloftinu og til þess vinna áfram að því að koma safneigninni til varanlegrar varðveislu í húsinu. Sýningin á Salthúsloftinu mun fjalla um veturinn í síldarbænum og verður skólastarfi, togaraútgerð, verkalýðshreyfingunni, félagastarfsemi og skíðaiðkun m.a. gerð skil og verður flóra sýninga safnsins enn viðameiri í kjölfarið. Styrkurinn til Salthússins dreifist á þrjú ár og nemur fimmtán milljónum króna.

Einnig var sótt um styrk til þriggja umfangsmikilla verkefna og fékkst rausnarlegur stuðningur til þeirra allra. Starfsmenn safnsins geta því látið sér hlakka til að takast á við spennandi verkefni á komandi mánuðum.

Einni milljón króna er veitt til nýrrar sýningar um líffræði síldarinnar og þróun síldveiða frá hruni síldarstofnsins til dagsins í dag, en hálf öld er nú liðin frá hvarfi síldarinnar. Sýningin verður unnin í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun.

Tvær milljónir voru veittar til stafrænnar miðlunar á Ljósmyndasafni Síldarminjasafnsins, en safnið gefur mjög greinargóða mynd af sögu staðarins og þar leynast frábærar heimildir um horfna tíma. Til að auka möguleika til miðlunar á ljósmyndasafninu og tryggja aðgengi almennings að safnkostinum verður hannaður góður ljósmyndavefur sem sækir upplýsingar til skráningarkerfis safnsins. Með aðstoð góðrar leitarvélar, skráningar og upplýsingagjafar af hálfu safnsins mun almenningur, fræðimenn og útgáfufélög eiga þess kost að skoða ljósmyndakostinn, leita að myndum af einstaklingum, stöðum, húsum eða öðru sér til gagns og gamans, panta einstaka myndir og færa sér þannig safnkostinn í nyt.

Að lokum hlaut verkefnið ‘Barnamenning – safn sem kennsluvettvangur’ og er samstarfsverkefni Síldarminjasafns Íslands og Grunnskóla Fjallabyggðar tveggja milljóna króna styrk. Markmið verkefnisins er að kynna fjölbreyttan starfsvettvang safnsins fyrir börnum og unglingum á tveimur eldri stigum grunnskóla og gefa þeim færi á að sjá og skynja safnið frá öðru sjónarhorni en almennir safngestir. Með skipulagðri kennslu yfir allt skólaárið koma nemendur til með að fá að spreyta sig á ólíkum verkefnum og fá innsýn í fjölbreytt starf safnsins og kynningu á fimm grunnstoðum safnastarfs: rannsóknum, söfnun, skráningu, varðveislu og miðlun. Verkefnið er liður í því að efla gott samstarf Síldarminjasafnsins við íbúa í heimabyggð og taka virkan þátt í menntun og tómstundum grunnskólabarna.

Starfsfólk og stjórn Síldarminjasafnsins færir safnasjóði bestu þakkir fyrir rausnarlegan stuðning, og lítur svo á að hann beri vott um styrka stöðu Síldarminjasafnsins meðal íslenskra safna.