Í gær birti Magnús Kristjánsson framkvæmdastjóri Orkusölunnar afsökunarbeiðni til íbúa Fjallabyggðar, vegna rafmagnsleysis föstudaginn 21. febrúar síðastliðinn. Niðurlag orðsendingarinnar er:
“Ég vil fyrir hönd Orkusölunnar biðja ykkur innilega afsökunar á óþægindunum sem þetta hafði í för með sér.“
Í orðsendingunni lýsir Magnús því að Skeiðsfossvirkjun, sem er ein af virkjunum Orkusölunnar, sló út vegna rekstrartruflunar í dreifikerfi Rarik umræddan dag. Þar segir einnig:
“Orkusalan telur að sá tími sem tók að koma rafmagni á Fjallabyggð eftir rekstrartruflunina sé óásættanlegur fyrir alla aðila og hafa sérfræðingar fyrirtækisins nú þegar átt fund með RARIK varðandi lausnir svo koma megi í veg fyrir sambærilegt ástand í framtíðinni.
Ljóst er að nokkrir þættir hafa breyst á síðustu árum sem gætu haft áhrif á þann tíma sem tekur að koma rafmagni á Fjallabyggð við slíkar aðstæður. Má þar meðal annars nefna aukningu jarðstrengja í dreifikerfi RARIK, að ekki sé lengur varaafl til reiðu í Fjallabyggð ásamt aldri á stjórn- og rafbúnaði tveggja véla Skeiðsfossvirkjunar.”
Orkusalan hefur ákveðið að endurnýja stjórn- og rafbúnað Skeiðsfossvirkjunar og vonar að með því geti Orkusalan lagt sitt af mörkum til að stytta þann tíma sem það tekur að koma rafmagni á Fjallabyggð þegar álíka rekstrartruflanir koma upp í framtíðinni.
Orðsendinguna má lesa í heild sinni hér.
Mynd: Skeiðsfossvirkjun, af vefsíðu Orkusölunnar.