Örlygur Kristfinnsson fagnar útgáfu bókar sinnar, Fólkið á Eyrinni, í Bátahúsinu í dag, laugardaginn 7. október kl. 17:00.

Höfundur kynnir bókina og Kolbeinn Óttarsson Proppé sagnfræðingur fjallar um gildi þess að segja sögur.

Fundarstjóri: Anita Elefsen.

Veitingar í boði og allir velkomnir.

Fólkið á Eyrinni, smámyndir og þættir, eftir Örlyg Kristfinnsson, er nokkurs konar framhald bókanna Svipmyndir úr síldarbæ 1 og 2 og líta má á sem uppgjör hans við síldarárin. Hann leiðir lesandann um tvær götur sem mynda kross á miðri Siglufjarðareyri og segir frá fólkinu sem þar bjó og sérstæðum vegfarendum. Hversdagslífið í bænum þar sem allt er gegnsýrt af síldinni er höfundi hugleikið en reglulega verða sögukaflarnir í stíl við ógleymanlegar mannlífsmyndir fyrri bókanna – og stundum lendum við óvænt á öðrum slóðum.

Meðal þeirra sem eiga kafla í bókinni má nefna Gogga Fanndal, Palla Gests og Budda skipstjóra, Bigga Run, Kidda og Stjána á Eyri, Odd í Bíó, Náttfríði, Stebba og Fíu í Kofa, Jón neta, Boggu Hjálmars, Þórunni í Zíon, Jörensen, Teu Jóns, Bauk í bankanum, Palla á Höfninni og Valda á Vatnsenda.