Það vakti nokkra athygli er 4. flokkur kvenna hjá KF/Dalvík í knattspyrnu fékk ekki að taka þátt í úrslitakeppninni af þeirri ástæðu að liðið var skráð sem B-lið. Trölli.is greindi frá þessu í ágúst. Friðjón Árni Sigurvinsson, þjálfari liðsins, gagnrýndi þessar reglur og greindi svo frá málinu.

Opið bréf frá þjálfara KF/Dalvík til Vöndu Sigurgeirsdóttur formanns KSÍ

Stelpurnar fengu eftirminnilegar sárabætur

Nú er komið í ljós að Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, var ekki búin að gleyma stelpunum í KF/Dalvík sem stóðu sig svo vel en máttu þola svo mikil vonbrigði. Vanda getur ekki breytt því að reglurnar eru eins og þær eru en hins vegar bauð hún stelpunum í heimsókn til KSÍ og á landsleik Íslands og Wales á föstudagskvöld. Kolbrún Einarsdóttir greinir frá þessu á Facebook og segir að þetta hafi verið gríðarlega skemmtilegur dagur fyrir stelpurnar:

„Fögnum því sem vel er gert!

Eftir mikla umfjöllun og samræður eftir að í ljós kom að 4. flokks stelpurnar okkar myndu ekki fá að spila til úrslita, vildi Vanda formaður KSÍ fá að gera eitthvað fyrir þær.

Úr varð að í gær var þeim boðið í heimsókn til KSÍ. Þar var tekið vel á móti þeim af öllu starfsfólki sem þær hittu. Þær fengu skoðunarferð um Laugardalsvöll, á keppnisdegi sem var mjög skemmtilegt. Fengu að fá að sjá hvernig undirbúningur og utanumhald er fyrir keppnisleiki, þær fengu m.a. að kíkja í klefana þar sem búið var að setja upp keppnisbúninga, kíktu út á völlinn og sátu fyrir svörum í blaðamannaherberginu þar sem Elmar blaðamaður lét spurningar dynja á þeim. Þeim var síðan boðið upp á pizzuveislu og fengu skemmtilega kynningu á starfsemi KSÍ.

Síðast en ekki síst fengu þær miða á landsleik kvennaliðsins sem var seinni partinn þar sem Ísland vann 1-0 sigur á Wales. Um helmingur stelpnanna var að fara á sinn fyrsta landsleik og skemmtu þær sér allar stórvel og hvöttu af kappi.

Eftir leik hópuðust þær neðst í stúkuna til að fá eiginhandaráritanir hjá landsliðsstelpunum sem gáfu sér góðan tíma í að sinna spenntum áhangendum.

Þetta var gríðarlega skemmtilegur dagur og mikil upplifun. Takk Vanda og KSÍ fyrir að gera þetta fyrir stelpurnar okkar.“

Heimild/DV
Mynd/Friðjón Árni Sigurvinsson