Undanfarnar vikur hef ég verið að fara ofan í saumana á afslætti fasteignagjalda á nokkrum stöðum á landinu til öryrkja og eldri borgara. Það sem vekur mikla undrun mína er af hverju eru ekki sömu reglur um þennan málaflokk, sama hvar á landinu fólk býr. En því fer víðsfjarri, hér í Fjallabyggð erum við virkilega aftarlega á merinni og hreinlega förum illa með þá sem minnst mega sín varðandi þennan málaflokk.

Á opnum framboðsfundi sem FM Trölli hélt þriðjudaginn 22. maí með fulltrúum flokkana þá lagði ég spurningu fram um hvað ætti að gera varðandi þennan málaflokk. Allir frambjóðendur voru sammála um að þörf væri á úrbótum, frá einum frambjóðanda kom fram að ekki væri ekki rétt að bera saman appelsínur og epli þegar dæmi voru tekin um upphæðir tekjumarks, annarsvegar frá Siglufirði og hinsvegar Reykjavík. Hér má heyra hljóðbrot frá fundinum: Hlusta hér

Hægt er að hlusta á fundinn í heild sinni hér: Hlusta hér

Ég er ekki sammála því að við þurfum að mismuna öryrkjum og eldriborgurum eftir búsetu eða stærð bæja, íbúar eru alls staðar jafn gamlir og jafn miklir öryrkjar! Í Vestmannaeyjum fella þeir þessi gjöld alfarið niður, við getum borið okkur saman við þá sem bær!

Í Fjallabyggð hefur viss upphæð verið eyrnamerkt þessum afslætti, en reglur eru það þröngar að eftir mínum upplýsingum hafa aðeins verið greiddir út 2/3 af þeirri upphæð.

Máli mínu til stuðnings ætla ég að nefna tekjumörk hjá nokkrum bæjarfélögum.

Til að fá 100% afslátt eru tekjumörk á ársgrundvelli:

Fjallabyggð
Einstaklingur: 2.300.000
Hjá hjónum eða samsköttuðum aðilum: 3.333.000

Reykjavík
Einstaklingur: 3.910.000
Hjá hjónum eða samsköttuðum aðilum: 5.450.000

Kópavogur
Einstaklingur: 4.500.000
Hjá hjónum eða samsköttuðum aðilum: 5.750.000

Til að fá 50% afslátt eru tekjumörk á ársgrundvelli:

Fjallabyggð
Einstaklingur:  2.718.000 – 3.136.000
Hjá hjónum eða samsköttuðum aðilum: 3.960.000 – 4.580.000

Reykjavík
Einstaklingar 4.480.000 – 5.210.000
Hjá hjónum eða samsköttuðum aðilum: 6.060.000 – 7.240.000

Kópavogur
Einstaklingur: 4.575.001 – 4.650.000
Hjá hjónum eða samsköttuðum aðilum: 6.050.001 – 6.350.000

 

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Mynd: af vef