Á fundi bæjarráðs þann 17. maí síðastliðinn var tekið fyrir erindi formanns stjórnar Leyningsáss ses þar sem óskað var eftir auknum fjárstuðningi til stofnunarinnar vegna reksturs skíðasvæðisins í Skarðsdal. Að auki var óskað eftir því að settir verði fjármunir í þær framkvæmdir sem ráðast þarf í til að klára flutning á lyftum, reisa skála og hafa skíðasvæðið í lagi.

Þar sem ekki tókst að koma á fundi stofnenda stofnunarinnar þá óskaði bæjarráð eftir að formaður stjórnar Leyningsáss kæmi á fund bæjarráðs þann 7. júní til þess að fara yfir þá stöðu sem upp er komin á skíðasvæðinu í Skarðsdal. Á fundinn mætti Kolbeinn Óttarsson Proppé stjórnarformaður Leyningsáss ses.

Bæjarráð þakkar stjórnarformanni Leyningsáss fyrir komuna á fundinn og tekur undir þær áhyggjur að mikilvægt sé að bregðast við ástandinu á skíðasvæðinu. Bæjarráð lýsir sig reiðubúið til viðræðna við Leyningsás þar sem áhersla yrði á aðgerðir til þess að ræða hvernig hægt sé að leysa úr þeirri stöðu sem upp er komin á skíðasvæðinu.

Bæjarráð samþykkti að skipa verkefnahóp sem sæi um viðræður við Leyningsás og skilaði tillögum til bæjarráðs innan tveggja vikna. Bæjarráð skipaði eftirtalda aðila í hópinn: Guðjón M. Ólafsson, Tómas Atla Einarsson og Ármann Viðar Sigurðsson.

Bæjarráð ítrekar mikilvægi samtals og samráðs stofnendanna sjálfseignarstofnunarinnar og fól bæjarstjóra að óska eftir formlegri afstöðu Selvíkur til verkefnisins.

Mynd/Steingrímur Kristinsson