Það vantar göngubraut….
Álíka ferðir fram á enda Sjóvarnargarðsins fram undan Öldubrjótnum, sem sést ef smellt er á tengil:> https://youtu.be/pdXKP6wOaJg
Slíkar ferðir eru oft farnar, allt frá enda við Íþróttahúsið fram til enda þess sem myndskeið sýnir. Ferðir um garðinn eru algengar, ekki aðeins af börnum, heldur og oftar af fullorðnum.
En því miður er ekki öllum fært þangað, vegna slysahættu þarna ofan á stórgrýtinu. Þarna hafa orðið óhöpp og slys, en þó ekki beinbrot, sem ég ekki hefi frétt af sem betur fer. Þarna sem myndskeiðið var tekið, var fólk að dorga sér til gamans sýndist mér. Ég hefi áður bent á (mörgum sinnum) að þegar Flóvent Jóhannsson verkstjóri Siglufjarðarbæjar árin 1915 – 1929, sá hann um byggingu sjóvarnargarðsins á Siglufirði þá, og var falin umsjón og eftirlit með honum af vitamálastjórninni.
Flóðvarnargarðurinn lá þá frá línu sem í dag væri frá beint neðan við afleggjarann frá norðurenda Túngötu til Hvanneyrarbrautar, og til vesturenda Öldubrjóts. Plankatimbur var rekið niður innst við garðinn, þar norðan við komið fyrir stórgrýti, hlaðið að mestu og unnið með handafli margra manna, síðan lét Flóvent samkvæmt teikningu, steypa tæplega tveggja metra breiða gangbraut ofaná grjótið eftir endilöngum garðinum.
Gönguleið sem var MJÖG mikið notuð og auðvelt fyrir fullorða sem krakka að komast frá kantinum niður í sandfjöruna til leiks í Hvanneyrarkrók. Garðurinn var til slíks notaður allt þar til áratugum síðar þegar stórbrim grandaði garðinum að lokum.
Svona eins hönnuðir Snjóvarnargarðana fyrir ofan Siglufjörð gerðu og voru teiknuð af framsýnu fólki, og öllum þeim sem þá garða nota til göngu og til þess að njóta þar útsýnis til ánægju.
Göngubraut ofan á Sjóvarnargarðinum væri ekki aðeins gerð fyrir okkur, heldur og mundi þetta draga að ferðamenn, eins og Snjóflóðavarnagarðarnir.
Þess vegna er kominn tími til að, viðkomandi nefndir og ráð í Fjallabyggð fari í verkið, og bjóði vélaverkstæðunum í Fjallabyggð að gera tilboð í smíði varanlegrar göngubrúar ofan á núverandi Sjóvarnargarði, allt frá Íþróttahúsinu til enda garðsins sem myndin sýnir. Einnig að koma fyrir á 2 – 3 stöðum smá afdrepi með tröppum niður til fjöru, sem og góðu afdrepi á enda garðsins í austri.