Í dag, aðfangadag jóla kl.18, flytur Oskar Brown þáttarstjórnandi á FM Trölla, sem er Íslendingur búsettur á Englandi, stutta jólahugvekju.
Oskar sem hefur alltaf verið mikið jólabarn og hlakkað til að hitta fjölskyldu og vini um jólin, talar á persónulegum nótum um árið sem er að líða og lýsir upplifun sinni af jólum fyrr og nú.
Jólahugvekja Oskars er sem fyrr segir á dagskrá FM Trölla í dag, aðfangadag kl.18.
Hægt er að hlusta út um allan heim með því að smella á hlusta á síðunni eða hér: Hlusta
FM Trölli næst á FM 103.7 á Tröllaskaga, í Skagafirði, á Hvammstanga og nágrenni.
Kæru hlustendur,
Líkt og flestir átti ég mér vonir í byrjun þessa árs að 2020 yrði gott ár. Ég átti miða á nokkra tónleika, hafði skipulagt lestarferð um Ungverjaland og ætlaði heim til Íslands til þess að hitta fjölskyldu og vini sem ég hafði ekki séð lengi. En vonir mínar, líkt og annarra, urðu að engu og 2020 hefur reynst eitt það versta ár sem ég man eftir. Á meðal þess sem hefur hrjáð okkur á þessu ári eru jarðskjálftar, skógareldar og þessi hræðilegi Kóróna heimsfaraldur. Og nú þegar jólin ber að garði er nokkuð víst að þau eru ekki efst í hugum margra.
Tilvera okkar hefur breyst mikið á síðustu mánuðum og líkist nú frekar sögurþráði kvikmyndar úr smiðju Hollywood en því sem við vorum vön áður en öll þessi ósköp byrjuðu. Margt af því sem áður þótti eðlilegt og sjálfsagt er nú óæskilegt eða bannað, og hræðsla ríkir í hugum margra varðandi framtíðina og afdrif ættingja og vina.
Ástandið hér í Bretlandi er ekki gott. Eftir útgöngubann númer 2 var sýslum skipt í 3 þrep, þar sem hvert þrep sagði til um hvað var leyfilegt og hvað mátti vera opið. Þetta virðist ekki hafa haft mikið að segja, því nú er stór hluti landsins í hæsta þrepi, þrepi 3, þar sem allt er meira og minna lokað og fólk má ekki hittast.
Síðustu tölur sýna að yfir 300 þúsund manns misstu vinnu á síðustu þremur mánuðum, hátt í 2 milljónir hafa greinst með Kórónuveiruna á þessu ári og nærri 70 þúsund hafa látist. Þrátt fyrir þessar hræðilegu tölur, hefur Breska ríkisstjórnin ákveðið að gefa þjóðinni leyfi til þess að koma saman og halda uppá jólin, og það má búast við því að þriðja útgöngubann bíði í janúar.
Þótt ég telji mig ekki trúaðan þá hef ég alltaf verið mikið jólabarn og hlakkað til þess að hitta fjölskyldu og vini yfir góðri máltíð. Foreldrar mínir héldu alltaf gleðileg jól þótt þau hefðu ekki mikið á milli handanna, og smákökubakstur, jólaskreytingar, og jólakorta skrif og gjafir, voru stór hluti af minni barnæsku. Einnig eru mér minnisstæð þau ár sem að pabbi stundaði sjóinn og útgerðarfyrirtækið sendi stóran kassa af eplum rétt fyrir jólin til allra þeirra sem störfuðu hjá þeim. Í dag væru fyrirtæki væntanlegri til þess að gefa starfsfólki bónus í formi peninga, nú eða þá í konfekti, en minningarnar um eplin ylja mér alltaf um hjartaræturnar.
Síðan ég flutti til Bretlands hefur oftar en ekki farið lítið fyrir jólunum vegna vinnu. Ég vann lengi sem flugþjónn og þurfti oft að vinna á hátíðisdögum. Það var því lítill munur á jóladögum og venjulegum dögum, og lítið vit í því að vera að skreyta og gera jólalegt þar sem ég vissi að ég yrði ekki heima.
Þetta hefur breyst á síðustu árum og vinnutíminn orðinn reglulegri. Jólin eru aftur orðin hátíðleg og tími til þess að gleðjast með mínum nánustu, og það hjálpar auðvitað að geta talað við þá sem eru staddir annarsstaðar í heiminum í gegnum internetið, án þess að eiga á hættu að fá símareikning uppá fleiri hundruð þúsund.
Jólahald hér í Bretlandi er töluvert ólíkt því sem að gerist á Íslandi. Aðfangadagur er venjulegur vinnudagur, þó að sumir vinnustaðir leyfi starfsfólki að fara fyrr heim. Margir fara í kirkju á aðfangadagskvöld til að hlýða á sérstaka jólamessu og syngja jólalög. Að morgni jóladags eru gjafir opnaðar og uppúr hádeginu kemur fjölskyldan saman og borðar. Restinni af deginum er síðan eytt í afslöppun í faðmi fjölskyldunnar.
Þótt ég hafi búið erlendis í rúm 20 ár þá held ég ennþá í íslenska jólasiði og fagna komu jóla á aðfangadagskvöld. Ég passa mig á því að eiga allavega eina nýja flík svo ég fari ekki í jólaköttinn, er sestur við matarborðið klukkan sex í mínu fínasta pússi, og passa uppá það að messan á rás 1 hljómi um allt hús á meðan við borðum. Eftir matinn, þegar búið er að ganga frá, þá setjumst við niður í stofunni og opnum pakka sem hafa komið frá Íslandi, og svo er vinum og ættingjum þakkað fyrir gjafirnar. Næsta dag er síðan haldið uppá jólin á enskan máta, og það má því segja að við eigum tvö jól á hverju ári.
Ég, maðurinn minn og kisurnar okkar tvær, höfum ákveðið að taka því rólega um þessi jól og vera ekkert að heimsækja vini eða ættingja, þótt slíkt sé möguleiki frá 23.-27. desember, þar sem slíkt gæti hjálpað þessari hræðilegu veiru að breiðast á milli heimila.
Jólamáltíðin verður með rólegra móti þetta árið, en jólaskapið mun ei vanta, því við erum búnir að skreyta, jólasmákökurnar eru komnar í hús, þökk sé bróður mínum sem býr í Svíþjóð, og svo keypti ég poka af eplum sem ég ætla að hafa í skál til að minna á betri tíma. Samtölin verða svo bara í gegnum síma eða internetið, en faðmlög og þakkarkossar bíða þangað til að bóluefninu hefur verið dreift og veiran á undanhaldi.
Kæru hlustendur, ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.
Oskar Brown.