Akureyrarbær vinnur þessa dagana að því að fylgja eftir skráningu á gististarfsemi í bænum og tryggja að hún fari fram í samræmi við lög og reglur.
Um er að ræða fasteignir sem auglýstar eru til skammtímaleigu á vefsvæðum á borð við Airbnb og booking.com, án þess að skráning eða rekstrarleyfi liggi fyrir.
Útsending bréfa til þeirra sem virðast vera að leigja út gistirými án nauðsynlegrar skráningar er nú þegar hafin í gegnum pósthólf island.is. Í bréfunum eru viðkomandi aðilar hvattir til að skrá heimagistingu sína eða sækja um rekstrarleyfi.
Akureyrarbær hvetur því alla sem eru með gististarfsemi í gangi, eða hyggjast hefja slíka starfsemi, til að kynna sér gildandi reglur og ganga frá nauðsynlegri skráningu eða leyfisumsókn á vef sýslumanna.