Óvenjulegt er að sjá jafn þurra veðurspá á þessum árstíma og nú segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Bæði ECMWF og GFS spáin gera ráð fyrir að alveg þurr verði á landinu næstu 7 til 8 dagana. Fyrra spákortið sýnir úrkomufrávik næstu 10 dagana hjá ECMWF og seinna kortið uppsafnaða úrkomu í GFS. Þar er hún engin.

Háþrýstisvæðið nærri landinu virðist ætla að halda velli og með þessum afleiðingum.

Það rigndi nokkuð síðustu tvo dagana í ágúst og fram á 1 september (sl fimmtudag). Síðan hefur verið að mestu þurrt á landinu. Þó ekki alveg alls staðar.

Í Reykjavík eru að jafnaði 20 úrkomudagar í september og meðalúrkoma 86 mm. Ekki rignir meira í nokkrum mánuði í höfuðborginni skv. tölfræðinni.