Trausti Jónsson veðurfræðingur fjallar um óvenjulegt veðurfar sem af er sumri. á bloggsíðu sinni í tilefni þess að í dag hefst fimmtánda vika sumars. Hann segir að á Austfjörðum verði hlýindin að teljast óvenjuleg. Meðalhiti fyrstu 14 vikur sumars á Dalatanga er 7,5 stig sem 0,5 stigum ofar en það hlýjasta til þessa þar um slóðir að minnsta kosti frá 1949 að telja.
Ekki kaldara síðan 1993
Í Reykjavík hefur aftur á móti verið heldur svalt og meðalhiti þar fyrstu 14 vikur sumars er aðeins 7,7 stig. Trausti segir að ómarktækt kaldara (7,6 stig) hafi verið á sama tíma 2015, „en síðan þarf að fara aftur til 1993 til að finna jafnlágan meðalhita fyrstu 14 sumarvikurnar“.
Það er hins vegar úrkoman sem Trausti segir óvenjulegri. „[M]ælst hafa rúmlega 300 mm í Reykjavík vikurnar fjórtán, það mesta sem vitað er um sömu vikur – næstu tölur eru um 250 mm, 2014 og 1887.“
Þá segir hann svipaða sögu að segja um sólarleysið. Aðeins mældust 343,7 sólskinsstundir í Reykjavík, það minnsta sem vitað er um fyrstu 14 vikur sumars – en ómarktækt minna en á sama tíma 1913, 1914 og 1984.
Samvinnuvottur júlí og ágúst
Trausti lýkur fróðlegum pistli sínum á að líta til nálægrar framtíðar í veðrinu:
„Góðu tíðindin eru þau að svo virðist sem heldur hlýrri dagar séu fram undan (þó varla þurrir) – hvað sem hlýjan svo endist er annað mál. Langtímareikningar sýna engar marktækar breytingar á veðurlagi á næstunni – og þó lengri framtíð sé auðvitað fullkomlega frjáls er það samt þannig að júlí og ágúst spyrða sig oftar saman hvað veðurlag varðar heldur en aðrir almanaksmánuðir – þeir einu reyndar sem sýna einhvern marktækan samvinnuvott.“
Frétt: mbl.is
Forsíðumynd: Kristín Sigurjónsdóttir