Veðrið í gær var með eindæmum gott hér á Siglufirði, ASA 4m/sek. fjögurra stiga frost og heiðskírt. Það gerist ekki betri aðstaðan til að fara á skíði í Skarðsdal en svona dýrðardagur, enda nýttu um 300 manns tækifærið og brunuðu niður brekkurnar.
Myndirnar sem fylgja fréttinni voru teknar í Skarðsdal í gær af Helenu Dýrfjörð og lýsti hún deginum með þessum orðum “Geggjað útivistarveður í dag og færið maður minn”
Dagurinn í dag verður ekki síðri, heiðskírt og aðstæður til útiveru eins og best verður á kosið.
Egill Rögnvaldsson er mjög ánægður með aðsókn, færð og veður sem af er vetri, rúmlega 5000 gestir hafa sótt Skarðsdalinn heim og stefnir í mun betri aðsókn en í fyrravetur.
Opið verður í dag sunnudaginn 10. mars frá kl. 10:00 – 16:00.
Skíðasvæðið samanstendur af 4 lyftum og 10 brekkum, ævintýraleið, hólabrautir, bobbbraut og pallar.
Skíðalyftur:
- Neðsta-lyfta, diskalyfta af Doppelmayr gerð, 430 m. löng. Fallhæð 100 m. Afkastar 480 manns á klukkustund. Byggð 1988.
- T-lyfta, einnig af Doppelmayr gerð, 1034 m. löng. Fallhæð 220 m. Afkastar 720 manns á klukkustund. Byggð 1988
- Bungulyfta, diskalyfta af Doppelmayr gerð, 530 m. löng. Fallhæð 180m. Afkastar 550 manns á klukkustund. Bungulyftan er í um 650 metrum yfir sjávarmáli. Byggð 2001
- Hálslyfta: diskalyfta af Doppelmayr gerð 320 m löng. Fallhæð 100m. Afkastar 500 manns á klst. Byggð 2012
Myndir: Helena Dýrfjörð