Kæru íbúar Fjallabyggðar.

Nú við lok þriðju viku samkomubanns er manni margt í huga, fyrst og fremst er það þó þakklæti og auðmýkt gagnvart öllu því fólki um allt land sem stendur nú í framlínu bardagans við Covit-19. Öllu því fólki þakka ég mjög svo óeigingjarnt starf í okkar allra þágu.

Að því sögðu þá hefur undanfarna daga verið að færast ákveðin ró og æðruleysi yfir samfélagið hér í Fjallabyggð, fólk virðist í raun vera að aðlagast nýjum og erfiðum aðstæðum.

Stjórnsýslan hjá okkur virkar og sinnir sínu þjónustuhlutverki, þökk sé góðu starfsfólki, gagnatengingum og tækninýjungum sem okkar fólk sameinast um að læra á og nýta. Aðrar einingar sveitarfélagsins hafa sömuleiðis haldið áfram að þjóna sínu þó aðstæður séu snúnar. Á höfninni vigta menn fisk þegar gefur og taka á móti skipum þá þau koma að landi. Áhaldahúsið stendur vaktina hvað varðar snjómokstur og annað það sem þar þarf við að glíma. Starfsfólk íþróttamannvirkja vinnur að viðhaldi og umhirðu eigna, eitthvað sem mun nýtast okkur þegar farsóttinni léttir.

Hjúkrunarheimilið, félagsþjónustan, sjúkrahúsið og aðrir þættir sem að velferð okkar snúa virkar allt og tekist hefur að manna hóp bakvarða sem aðstoða eftir því sem þörf krefur. Miklar takmarkanir eru á heimsóknum og umgengni um stofnanir, það er eðlilegt í svona ástandi og ekkert við því að gera. Við hlýðum jú Víði án þess að mögla hið minnsta.

Starfsemi grunnskólans hefur að mestu leyti gengið vel þessar vikur sem liðnar eru í samkomubanni. Á tímum þrenginga og kreppu verða gjarnan til ný tækifæri og skólastarf hefur tekið miklum og spennandi breytingum. Tækni og fjarkennsla spila nú stórt hlutverk í kennsluháttum og hafa kennarar og nemendur tekist á við gjörbreyttar aðstæður með opnum huga og stór framfaraskref víða verið stigin. Eldri nemendur sinna námi af alúð frá heimilum sínum og yngri nemendur una sáttir við sitt í skólanum. Nokkuð hefur borið á fækkun nemenda í skólahúsunum og er það visst áhyggjuefni þar sem eðlilegt skólastarf er líklegast ekki í sjónmáli alveg á næstu vikum. Þegar foreldrar meta nauðsynlegt að halda börnum alveg heima er afar mikilvægt að samstarf um nám barnanna sé opið og því fylgt eftir.

Sama má segja með leikskólann, þar hefur starfið gengið mjög vel við krefjandi aðstæður. Starfsfólk hefur lagt sig fram um faglegt og fjölbreytt starf við mjög knappar aðstæður þar sem hópar eru einangraðir og því takmörkuð not af sameiginlegum rýmum. Börnin una hag sínum vel en eru hissa á nýjum reglum og breyttum aðstæðum. Eðlilega gætir þreytu í hópnum en mikilvægt er að halda út og sýna samstöðu. Áfram er biðlað til foreldra þeirra barna sem geta létt undir með leikskólanum og haft börn sín heima a.m.k. einhverja daga að gera það í samráði við leikskólastjóra. Skerða hefur þurft opnunartíma og lýkur nú starfi með börnunum kl. 15:30 á daginn því nauðsynlegt var að gefa sótthreinsun og þrifum á leikefni og snertiflötum rýmri tíma. Rétt er að biðla til foreldra að fara eftir fyrirmælum leikskólans þegar kemur að umgangi um innganga og fataklefa barnanna. 

Í tónlistarskólanum er kennsla að miklu leyti komin í fjarvinnslu. Kennarar nota ýmsar tæknilausnir til kennslu og samskipti við nemendur sína og finna leiðir sem best henta hverjum og einum nemenda eftir því hvernig tónlistarnám viðkomandi stundar.  Tónfræðikennsla fer þannig fram að nemendum er sett fyrir heima og skila til síns kennara í gegnum fjarmiðla með myndum af verkefninu. Kennarar og nemendur tónlistarskólans eiga hrós og þakkir skildar fyrir útsjónarsemi og þolinmæði á þessum dæmalausum tímum.

Í vikubyrjun samþykkti bæjarráð aðgerðir sem veita okkur svigrúm til að takast á við óvissuna sem nú ríkir. Um er að ræða gjaldfrest á greiðslu fasteignagjalda lögaðila og ákvörðun um að ekki verði innheimt fyrir þjónustu sem ekki er mögulegt að veita eða fólk ákveður að nýta ekki til að létta undir með stofnunum sveitarfélagsins. Einnig var á fundinum settur á stofn stýrihópur sem hefur það hlutverk að upphugsa og útfæra frekari viðbrögð og leggja um það tillögur fyrir bæjarstjórn eða bæjarráð. Ljóst er að í þeirri vinnu er allt undir, rekstur sem og framkvæmdir. Allt með það að markmiði að standa vörð um hag íbúa og fyrirtækja eftir því sem okkur best er mögulegt.

Þegar þetta er skrifað þá eru fjórir aðilar hér í Fjallabyggð í sóttkví og einn smitaður. Líklegt verður að telja að fleiri eigi eftir að smitast á komandi dögum. Einnig hefur sóttvarnalæknir lagt til við heilbrigðisráðherra að samkomubann verði framlengt út mánuðinn sem segir sína sögu. Það er í mínum huga mjög mikilvægt að við, hvert og eitt, förum að fyrirmælum og nýtum skynsemina. Það á að sjálfsögðu við um alla landsmenn, við þurfum öll að sýna samfélagslega ábyrgð. Í því felst meðal annars að „ferðast heima“ um komandi páska.

Telja má líklegt að ástandið eigi eftir að versna á komandi dögum en jafnvíst er að það á eftir að batna og við að komast í gegn um þær tímabundnu hremmingar sem við nú upplifum. Á komandi vikum er mikilvægt að við gætum þess að vera góð hvert við annað, sínum skilning, samhygð og gætum að okkar minnstu bræðrum og systrum.

Um leið og ég óska ykkur öllum góðrar helgar þá vil ég nefna að nú þegar lífið er okkur um sumt andstreymt þá getur verið ágætt að minnast þess að mótvindur er betri til flugtaks en meðvindur.

Elías Pétursson
Bæjarstjóri

Gagnlegar upplýsingar.

  • Upplýsingar um takmarkanir á starfsemi stofnana Fjallabyggðar má nálgast hér
  • Upplýsingar um fyrstu aðgerðir Fjallabyggðar má nálgast hér
  • Upplýsingar um Covit-19 má nálgast hér
  • Tölfræði er varðar Covid-19 má nálgast hér

Mynd: Magnús G. Ólafsson