Alþjóðadagur neytendaréttar er haldinn hátíðlegur um allan heim þann 15. mars ár hvert.

Þennan mikilvæga alþjóðadag má rekja til ársins 1962 en 15. mars það ár var John F. Kennedy Bandaríkjaforseti fyrstur þjóðarleiðtoga til að lýsa því formlega yfir að neytendur hefðu grundvallarréttindi. Alla tíð síðan hefur dagurinn verið helgaður baráttunni fyrir bættum neytendarétti og er markmið dagsins ekki síst að vekja stjórnvöld og almenning til umhugsunar um neytendarétt og neytendamál yfir höfuð.

Í ár er sjónum beint að plastmengun en framleiðsla og neysla á plasti, sérstaklega einnota plasti, er ósjálfbær, skaðar umhverfi og er heilsuspillandi. Samkvæmt Alþjóðasamtökum neytenda (Consumer International) sýna kannanir að neytendur hafa auknar áhyggjur af plastmengun og sífelt fleiri gera sér far um að minnka plastneyslu með öllum ráðum.

Til að ná tökum á vandann þarf að ráðast í gagngerar aðgerðir á öllum stigum og tryggja að sjálfbær neysla verði ætíð hið auðvelda val.

Á Alþjóðadegi neytendaréttar í ár hafa Alþjóðasamtök neytenda ákveðið að leggja áherslu á sjö atriði: Endurskoða, hafna, spara, endurnýta, endurvinna, endurbæta, endurskapa (e. Rethink, Refuse, Reduce, Reuse, Recycle, Repair and Replace).

Heimild/Neytendasamtökin