Fjölmenni var saman komin í Kirkjuhvammi á mánudaginn þegar Ungmennasamband Vestur-Húnvetninga fagnaði 90 ára afmæli sínu.

Í bókinni Húnaþing rekur sr. Gísli Kolbeins uppruna ungmennasambandsins, en þar segir: „U.S.V.H. er sprottið upp úr jarðvegi félagslífsins og rekur uppruna sinn til þeirrar félagsstarfsemi, sem löngum hefir verið rækt í héraðinu.“ Í lögum sambandsins, sem samþykkt voru á stofnfundinum, er tilgangi félagsins lýst á einfaldan hátt: „Tilgangur sambandsins er að finna að því að sameina krafta hinna einstöku félaga.“ Á stofnfundinum var samþykkt tillaga þar sem fundurinn taldi æskilegt að íþróttaiðkun verði tekin upp á sambandssvæðinu. Í þessum tillögum stofnfundarins kom í ljós hvert stefnan var tekin í félagslegu tilliti og hefur starfsemi sambandsins einkennst af íþróttamálum, samstarfi og samheldni. Segja má að sú stefna eigi við enn í dag, 90 árum seinna. Fyrstu stjórnarmenn U.S.V.H. voru Ingólfur Gunnlaugsson, Reynhólum, formaður, Guðmundur Björnsson, Núpsdalstungu, ritari og Aðalsteinn Teitsson, Víðidalstungu, gjaldkeri.

Tímamótunum var fagnað í Kirkjuhvammi þar sem haldið var fjölmennt frjálsíþróttamót fyrir unga sem aldna, spilaður fótbolti og boðið var upp á veitingar.

Óhætt er að segja að öflugt íþrótta- og tómstundastarf er hverju samfélagi dýrmætt og gegnir USVH mikilvægu hlutverki í sveitarfélaginu. Í tilefni tímamótanna samþykkti byggðarráð á fundi sínum 28. júní sl. að veita Ungmennasambandi Vestur-Húnvetninga 500.000 kr. styrk til áhaldakaupa. Byggðarráð þakkar jafnframt USVH óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins og óskar því velfarnaðar til framtíðar.

Hér má sjá nokkrar myndir frá afmælismótinu. 

Mynd/ U.S.V.H.