Siglo Golf golfvöllurinn opnar á morgun, laugardaginn 15. júní kl. 9:00 og hefur verið opnað fyrir golfbox skráningu.

Mikill spenningur er fyrir golfsumrinu, þó það hafi látið aðeins bíða eftir sér. Sumarið og starfið á Siglo Golf verður með svipuðu sniði og í fyrra, þó með einhverjum nýjungum sem munu líta dagsins ljós þegar fram líða um stundir segir á facebooksíðu Golfklúbbs Siglufjarðar.

Þar segir jafnframt. “Veturinn og vorið sem aldrei kom var vellinum erfiður og má sjá það með áberandi hætti á grassvæðum vallarins. Allt kapp hefur verið sett í að gera það sem hægt er að gera til að hjálpa vellinum m.a. með snjótroðara til að létta á snjó í maí svo eitthvað sé nefnt. Vallarstarfsmenn hafa sáð í allar flatir, sandað og borið á helstu svæði. Vökvun verður svo í fullum gangi til að flýta spírun og framgangi grassins sem mest.

Við biðjum því kylfinga að sýna þessu skilning, allt kapp verður lagt á að koma vellinum í gott ástand. Þetta er þolinmæðisverk og ekki síst fyrir starfsmenn sem eru þarna fyrir eitt, og það er að völlurinn skarti sínu fegursta. Klapp á bakið og jákvæðni flytur fjöll.

Árgjöld meðlima GKS hafa verið send í heimabankann og ef það eru einhverjar spurningar varðandi það má hafa samband við steindor@gagolf.is

Upplýsingar um árgjöld má finna: https://www.gagolf.is/is/siglo-golf/verdskra

Ég vil svo minna að meðlimir GKS eru velkomnir á Jaðarsvöll einnig, þar sem meðlimir GKS geta nýtt sína hringi þar sem fylgja árgjaldi 2024.

Með von um gott golfsumar og frábært samstarf

Steindór Kr. Ragnarsson framkvæmdastjóri GA”