Pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir lagðar niður – víðtækar breytingar á barnaverndarlögum samþykktar.

Alþingi hefur samþykk frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um breytingu á barnaverndarlögum. Málið er liður í endurskoðun laga um þjónustu í þágu barna. Um er að ræða fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga.

Í lögunum felst meðal annars að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Í stað barnaverndarnefndar verður starfrækt barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar á vegum sveitarfélaga. Sérstök áhersla er lögð á fagþekkingu innan umdæmisráða barnaverndar. Þá er kveðið á um að barnaverndarumdæmi séu almennt ekki fámennari en 6.000 íbúar. Sveitarfélög geta þó fengið undanþágu frá reglum um lágmarksíbúafjölda ef þau sýna fram á lágmarks fagþekkingu á barnavernd.

Lögunum er jafnframt ætlað að gefa færi á samþættingu barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu sem er veitt í þágu barna. Tengjast ákvæði laganna að því leyti öðrum frumvörpum sem urðu að lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Við vinnslu frumvarpsins hafði ráðherra víðtækt samráð við almenning og hagsmunaaðila um efni frumvarpsins frá því að áform um heildarendurskoðun barnaverndarlaga voru kynnt í október 2019. Við undirbúning frumvarpsins var meðal annars haft samráð við börn, en í lögunum eru meðal annars ákvæði sem miða að því að styrkja réttindi barna við meðferð barnaverndarmála.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra:
„Ég er virkilega glaður og ánægður með að Alþingi hafi samþykkt þetta frumvarp um breytingu á barnaverndarlögum, en málið er hluti af mestu breytingu á kerfinu sem ráðist hefur verið í síðustu áratugi. Markmiðið í allri þessari vinnu er að barnið verði hjartað í kerfinu og að kerfið vinni fyrir börnin. Það hefur verið frábært að vinna þetta mál með öflugum hópi fólks og vil ég nota tækifærið og þakka þeim fyrir þeirra ómetanlega starf. Við erum rétt að byrja.”

Fréttatilkynning frá félagsmálaráðuneytinu.