Tímarnir breytast.

Við upphaf nýs áratugar breyttist margt og þar á meðal tónlistin. Nýir áhrifavaldar komu til sögunnar með nýja strauma og stefnur. Bítlarnir voru hættir og margir samtíðamenn þeirra voru búnir að gera sína bestu hluti. Woodstook tónleikarnir, rokkóperan Jesus Crist Superstar, hljómsveitir á borð við Cream, Who, Santana, Led Zeppelin, Deep Purple, Black Sabbath, Queen, Creedence og auðvitað margir fleiri voru fulltrúar hinna nýju tíma. Þetta þýddi mikinn vendipunkt hjá mörgum ungpopparanum og það þurfti að hugsa margt upp á nýtt, og þá voru nokkrir nýfermdir unglingar norður á Sigló þar engin undantekning. Við guttarnir litum upp til eldri hljómsveitartöffarana í bænum, enda voru þeir helstu áhrifavaldarnir í okkar nærumhverfi.

Það var um þetta leyti sem ég eignaðist minn fyrsta plötuspilara. Ekki man ég tegundarheitið, en þetta var mónógræja í leðurlíkisklæddum trékassa með loki sem var hægt að smella yfir hann eftir að rafmagnssnúran hafði verið gerð snyrtilega upp. Síðan voru höldur á einni hliðinni á trékassanum sem leit þá út eins og ferðataska af allra minnstu og fornfálegustu gerð. Þennan plötuspilara átti ég í nokkur ár og reyndist hann mun betur en útlitið benti til.

Framan af átti ég lítið sem ekkert af plötum, en það breyttist snarlega einn daginn. Nokkur áróður var rekinn af litlum hópi ungra manna og kvenna fyrir þróaðra rokki hinna nýju tíma og það óvirðulega nafn “kúlutyggjópopp” var notað á niðurlægjandi hátt um þá sem enn voru svo “púkó”, að þeir hlustuðu á Hermann Hermits og álíka súkkulaðidrengi.

En hver vill vera púkó? Ekki ég, sungu Stuðmenn hérna um árið og þannig var það með marga á þessum viðkvæma aldri. Þórhallur Ben var einn þeirra sem ákvað að selja megnið af gömlu plötunum sínum og hefja nýtt tónlistarlíf. Ég keypti af honum fullt af “kúlutyggjói” á 300 kall stórar plötur og 100 kall litlar sem ég á flestar enn. Þarna voru nokkrar frumútgáfur Stones og Bítlanna, en einnig fínar skífur með Kinks, Bee Gees, Dave Clark Five, Beach Boys, Searchers og fleirum. Það varð í framhaldinu mín sakbitna sæla að hlusta á kúlutyggjópoppið næstu árin og hafði ég mikla unun af, en ég var auðvitað ekkert að flagga því.

Þórhallur og gítargoðin.

Um Þórhall er það að segja að ein af fyrstu plötunum sem hann keypti eftir þetta, voru Woodstock hljómleikarnir og sátum við stundum heima hjá honum eftir skóla og hlustuðum með galopin eyrun á þennan nýja tón sem nú hafði verið sleginn. Þá var Electric Ladyland með sjálfum Jimi Hendrix næst á innkaupalistanum og dag einn var hringt í Hverfitóna sem var þá ein aðal plötubúðin í Reykjavík og spurt um þetta meistaraverk. Því miður var hún uppseld í augnablikinu, en myndi sennilega koma með næstu sendingu eftir tvær vikur eða svo. Ég man að þetta voru mikil vonbrigði, því á þessum árum er alltaf erfitt að þurfa að bíða. En konan í búðinni mælti með annarri plötu með nýrri óþekktri hljómsveit sem var spáð mikilli velgengni og bætti því við að þeir sem hlustuðu á Hendrix myndu líka fíla þessa. Með hálfum huga samþykkti Þórhallur að festa kaup á plötu nýliðanna, en spurði auðvitað hvað hljómsveitin héti.

Led Zeppelin var svarið og fyrsta breiðskífa þeirrar hljómsveitar lagði í kjölfarið af stað til Siglufjarðar í póstkröfusendingu frá Hverfitónum til Þórhallar Ben.

Þegar krafan hafði verið leyst út á pósthúsinu var farið með hana upp á Þormóðsgötu og platan sett undir nálina. Það var ekki laust við að okkur strákunum yrði svolítið bilt við þegar fyrstu tónar fyrsta lagsins á A-síðunni “Good times, bad times” rauf þögnina í herberginu sem hafði verið þrungin talsverðri eftirvæntingu. Eftir að hafa hlustað á alla plötuna sagði einhver í hópnum: “Jú, þetta er nú bara alveg þó nokkuð gott”.

Æskulýðsheimilið á Siglufirði eða Æskó.

Bláu Bítlarnir og fleiri upprennandi barnastjörnurnar.

Við Hendrix-liðarnir byrjuðum að æfa í kjallaranum heima hjá Óttari, en síðar fengum við inni í Æskó um tíma. Um svipað leyti æfði barnaskólahljómsveitin Bláu Bítlarnir þar uppi í risi, þ.e. þeir Finni Hauks, Siggi Blöndal, Bjössi Sveins og Robbi Guðfinns. Halli Gunni mun einnig hafa staldrað við alveg örstutt, en hann var látinn fara þar sem hann taldist ekki eiga samleið með hinum strákunum af þeirri ástæðu að hann var allt of góður. Þegar leið á líftíma bandsins sem var reyndar ekkert mjög langur, gerðist Robbi umboðsmaður og Biggi Inga tók við trommunum, en hann hafði aðeins spilað með lúðrasveitinni sem Hlynur Óskars stjórnaði um þær mundir. Simon says, You can dance, Yummy yummy yummy og Money money voru vinsælustu lögin og á þessum tíma var Simon says líklega á lagalista allra starfandi hljómsveita á Siglufirði og þótt víðar væri leitað. Meira að segja líka hjá Hrím og var þar mikið stílbrot innan um allan blúsinn og eðalrokkið. Stjáni bróðir Finna söng You can dance í Max, og Finni söng það þess vegna líka í sinni hljómsveit, en Gunna Finna söng það svo líka heima á Eyrargötunni á góðum stundum og spilaði að sjálfsögðu undir á kassagítarinn. Bláu Bítlarnir munu hafa spilað á einu balli í Æskó auk þess að koma einu sinni fram hjá Max.

Finni sagði að Robbi hefði verið góður umboðsmaður og hugsað mikið um að græjumálin væru í góðu lagi og notaðist talsvert við „lóð og tin“. Á þessum tíma voru flestir að nota hvítu Teisco 88 magnarana sem reyndust ágætlega, en öryggin í þeim áttu það þó til að springa. Kannski var það vegna þess að stundum voru margir að nota þá á sama tíma og þeir ekki þolað álagið, en dæmi voru þess vegna um að þau voru fjarlægð og nagli settur í staðinn. Einhvern tíma mun Robbi hafa verið að sýsla með sprungið öryggi, en fyrir einhverja rælni stungið fingrinum í gatið þar sem öryggið átti að vera. Ekki var að sökum að spyrja, mikill hvellur, reykur og eldglæringar fylgdu þessari aðgerð og umboðsmaðurinn sem varð þarna vel upplýstur um hvernig rafmagn hegðaði sér, mun framvegis hafa betur kunnað fingrum sínum forráð í öryggismálum.

Stebbi Fidda, Matti Ægis og Bjössi Jósefínu (og e.t.v. einhverjir fleiri) æfðu nokkur vel valin lög um svipað leyti og komu fram við ýmis tækifæri. Bjössi var söngvarinn í hópnum og söng m.a. rússnesk þjóðlög, en hann hafði mikla og djúpa rödd.

Stebbi sagðist hafa eignast sinn fyrsta gítar á eins konar fjármögnunarleigu hjá Robba. Stutta útgáfan af sögunni var að Stebba vantaði gítar en átti ekki pening. Robbi átti pening en vantaði ekki gítar. Robbi keypti gítar handa Stebba sem borgaði Robba þegar hann fékk borgað fyrir að spila á gítarinn. – Ekki mjög flókið.

Og Stebbi Fidda kom víðar við á þessum árum, því hann varð einnig liðsmaður í hljómsveitinni Áhrif sem æfði stíft um tíma í kjallaranum í Æskó um eða upp úr 1970 en spilaði þó eitthvað lítið. Þar voru einnig liðsmenn þeir Raggi Tona (söngvari) Baldur Jörgen, Guðni Sölva, Matti Ægis, Kristinn Ásmundsson (örfhentur gítarleikari úr Fljótunum sem síðar spilaði með Upplyftingu) og Björn Valur Gíslason skipstjóri, fyrrverandi alþingismaður og aðal hugmyndafræðingurinn í Roðlaust og Beinlaust. Ekki má svo gleyma að nefna til sögunnar Halla Bó sem var sérlegur fylgifiskur hljómsveitarinnar og hafði m.a. það sérstæða hlutverk að sitja fyrir framan bassatrommuna til að hún yrði kyrr á sínum stað meðan Guðni lamdi húðirnar, en hann átti þó einnig til að taka eitt og eitt lag inn á milli.

Í Gagganum varð til hljómsveitin Tupamaros, en þar voru á ferðinni að miklu leyti sömu drengir og skipuðu Bláu Bítlana áður, en þeir voru Stebbi Fidda, Bjössi Sveins, Höddi Júll og Siggi Blöndal. Tupamaros spilaði meðan hún var við lýði á nokkrum böllum í Gagganum, Æskó og a.m.k. einu sinni í Allanum

Nafnlausu hljómsveitirnar.

Um svipað leyti og Óskar Elefsen, Finni Hauks, Biggi Inga og Siggi Blöndal hófu æfingar í kjallaranum heima hjá Óskari á Suðurgötunni, var unglingahljómsveitin Hendrix að leysast upp. Þórhallur vildi spreyta sig með einhverjum lengra komnum og hóf æfingar með Þolla Halldórs, Stúlla Kristjáns og Vidda Jóhanns. Þetta band sem enginn sem ég þekki til man eftir að hafi borið neitt nafn, spilaði á einu balli í Æskó og var saga þess þar með öll því að Stúlli þurfti að skila rafmagnsorgelinu sem hann fékk lánað hjá þeim sem þetta ritar. Fáeinum mánuðum síðar lá leið Stúlla í hið nýstofnaða gömludansaband Miðaldamenn, en þar voru þá fyrir Bjarki Árna, Þórður Kristins og Maggi Guðbrands. Þórhallur fór að spila með með Eið og félögum í Lísu, en hann átti auðvitað eftir að koma meira við sögu síðar. Kjallarabandið á Suðurgötunni náði aldrei að spila opinberlega og kom sér heldur aldrei upp neinu nafni svo vitað sé. Helmingur þess sameinaðist síðan helming Hendrix, en sú afurð fékk æfingaraðstöðu í kaffistofunni í Ísafold. – Þökk fyrir það Skúli Jónasson.

Við Guðni Sveins vorum miklir mátar og áttum það jafnvel til að klæða okkur með svipuðum hætti eins og sjá má

Þar með varð til enn ein nafnlausa hljómsveitin sem samanstóð af Óskari Elefsen, Bigga Inga, Guðna Sveins og undirrituðum. Guðni sem nú var orðinn sólógítarleikari, æfði stíft endalausar fingraæfingar, var sendur í sveit um sumarið inn á Reykjarströnd í Skagafirði, en tók auðvitað gítarinn með. Við Óskar hjóluðum þá upp á Krók, m.a. í því skyni að veita honum móralskan stuðning í æfingabúðunum, en snérum reyndar við þar vegna þess hve við vorum orðnir þreyttir.

Ein af nafnlausu hljómsveitunum: Birgir Ingimarsson, Leó R. Ólason, Óskar Elefsen og Guðni Sveinsson

Fyrsta og jafnframt síðasta giggið okkar var í Gagganum, en þar fengum við náðarsamlegast að koma fram á Diskóteki. Það fór bókstaflega allt úrskeiðis sem farið gat úrskeiðis. Bilaðar snúrur, sambandsleysi í magnara, suð og urg sem enginn vissi hvaðan kom og allir við það að fá taugaáfall. Útkoman var verulega vond svo ekki sé meira sagt og eftir fjögur lög hrópaði ein skólasystir mín eins hátt og raddböndin leyfðu: “Komiði með diskótekið aftur”, og það varð endirinn á útgerðinni. Ég fann Guðna vin minn svolitlu síðar um kvöldið sitjandi úti á tröppum þar sem hann bar sig ekki sérlega vel. Ég mælti einhver huggunarorð sem dugðu þó skammt og sagði eitthvað í þá áttina að þetta gengi nú bara betur næst. “Skítt með hvernig þetta gekk hjá okkur, en hvað heldurðu að stelpurnar segi eftir þetta” svaraði sólógítarleikarinn.

Guðmundur Ingólfsson söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar FART

Hljómsveitin með undarlega nafnið.

Það er ekki hægt að ljúka upptalningunni á siglfirskum unglingahljómsveitum sem lifðu mjög stutt og spiluðu lítið sem ekkert án þess að nefna eina til, en val á nafni hennar olli bæði mér og mörgum fleirum talsverðum heilabrotum. Þeir bræður Guðmundur og Arnar Ingólfssynir hófu æfingar upp úr 1970, ásamt Þorleifi Halldórssyni (Þolla) í Túngötu 2 þar sem faðir þeirra bræðra rak á þeim tíma rafmagnsverkstæði. Við yngri guttarnir stóðum stundum fyrir utan og hlustuðum og vorum nokkuð sammála að einhverra vegna væri þessi samsetning ekki alveg að gera sig. Það gekk reyndar eftir því eftir að auglýstur var dansleikur í Alþýðuhúsinu hjá Brandi fóru engar frekari sögur af hljómsveitinni, en það var sagt að aðeins hefðu mætt þrír á ballið, sumir sögðu sjö. En það var nafnið sem eins og fyrr segir sem vakti nokkra athygli, en bandið nefndist FART.

Spurningin var hvort það var sótt í dönskuna og þýddi þá hraði, eða var kannski komið úr engilsaxnesku sem þýddi þá reyndar allt annað.

Texti Leó R. Ólason.

Heimildarmenn: Ragnar Antonsson, Friðfinnur Hauksson, Þorleifur Halldórsson, Birgir Ingimarsson og Stefán Friðriksson.