Bítlið nemur land á Siglufirði.
Hver er munurinn á poppi og rokki og hvað í veröldinni er popprokk? Wikipedia segir að popptónlist sé skilgreind sem tónlist og tónlistarstefnur sem höfða til sem flestra áheyrenda. Það er að segja sú tónlist sem selst mest sem hljóðrit, fær flesta áheyrendur á tónleika og mesta hlustun á útvarpsstöðvum. En rokktónlist er bæði vinsæl og selst vel, og er þá rokkið sama og popp? Skal ekki segja, en sumir vilja líta á popp sem einhverja mýkri tegund af rokki og ekki alveg það sama. Var það ekki Óli Palli sem sagði að allar þessar tónlistarstefnur væru allar sama kántrýið þegar upp væri staðið. Ég ætla ekki að gerast neinn dómari í málinu og vil helst gera sem minnstan greinarmun á mismunandi stefnum sem margar eru náskyldar ef grannt er skoðað, en ég er bara af þeirri kynslóð og á þeim aldri að fyrir mér hófst þetta allt saman með byltingu Bítlanna og þeirra hljómsveita sem höfðu þá sem sína fyrirmynd og fetuðu svipaða slóð. Eða reyndu að minnsta kosti að gera það.
Þegar Bítlarnir komu fram í byrjun sjöunda áratugarins voru dagar rokkkónsins Elvis auðvitað ekki taldir, en hann þurfti að sætta sig við að lifa að einhverju leyti í skugga þeirra næsta áratuginn. Alla vega hérna megin Atlandsála. Það hafði verið gerð tónlistarleg hallarbylting um veröld víða og áhrifin birtust alls staðar. Meira að segja í litlu sjávarþorpi norður undir Dumbshafi þar sem stórkostlegt ævintýri sem var kennt við silfraðan fisk hafði hafist sextíu árum áður, en var nú á fallanda fæti. Þar fór líka allt á fleygiferð. Einhver sagði; “það voru starfandi fjórar hljómsveitir bara í fjórða bekk og á sama tíma”. Kannski voru þetta einhverjar ýkjur og kannski voru sömu strákar í nokkrum hljómsveitanna. Ég skal ekki segja um það, en gróskan var gríðarleg, svo mikið er víst. En það voru auðvitað ekki bara Bítlarnir sem voru ábyrgir fyrir öllu hafaríinu sem gerði allt vitlaust, þó þeir væru vissulega mestu áhrifavaldarnir. Það komu líka Stones og Kinks, og Mannfred Mann og Hermann Hermits og, og, og… heil skriða af frambærilegum hljómsveitum með frambærilega tónlist.
En þegar áratugurinn var liðinn, höfðu ungir tónlistarunnendur skipt um gír og slegið allt annan og öðruvísi tón. Elvis var kominn af léttasta skeiði í orðsins fyllstu merkingu og Bítlarnir voru hættir, en byltingin lifði.
Grunnurinn og grasrótin.
Við skulum kíkja aðeins á þessi upphafsár nýrra tónlistartíma á Sigló. Það voru auðvitað fyrir hljómsveitir og tónlistarmenn sem héldu áfram að starfa á sínum forsendum. Þar bar einna hæst Gautlandsbræðurnar þá Tóta og Guðmund, Þórð og Bjarka, Ragnar Pál og marga ágæta menn sem voru samtíða þessum köppum. En ný kynslóð var að stíga fram og hún vildi fara aðrar leiðir, en tímarnir eiga það til að tengjast með undarlegum hætti. Margir af þeim sem mörkuðu ný upphafsspor upp úr 1960 stigu sín fyrstu tónlistarskref í Lúðrasveit Siglufjarðar sem verður að teljast frekar mikil fortíðarmúsik í hugum margra poppara, en en hún var þeim þó bæði mikil menntastofnun og gott veganesti til framtíðar. Gerhard Schmidt var líka kominn í bæinn og það breytti nú ekki svo litlu. En tölum aðeins um lúðrasveitina sem var eiginlega svolítið þreföld í roðinu. Ein var fyrir styttra komna, önnur fyrir lengra komna en svo var Skálmhornasveitin. Hún var sérstök sveit og ólík öllum öðrum lúðrasveitum. Kristján Sigtryggs stjórnaði henni og þar var eingöngu leikið á hljóðfæri sem flutt höfðu verið inn frá Austur-Þýskalandi eða Rússlandi. Þessi hljóðfæri voru afar sérstök að ýmsu leyti. Tónsvið þeirra spannaði aðeins eina áttund og öll lög þurftu að vera í F-dúr. Þeir annmarkar takmörkuðu því lagavalið verulega mikið. Þau voru líka miklu háværari en flest önnur blásturshljóðfæri og áttu því litla samleið með þeim sem hefðbundnari töldust. Einn af hinum árvissu viðburðum Skálmhornasveitarinnar ár hvert voru tónleikar á Sumardaginn fyrsta. Þá var setið uppi á vörubílspalli og spilað lagið “Nú er vetur úr bæ,” en sú laglína rúmast einmitt innan einnaráttundarmarkanna.
Undanfarar í græjuleit.
Magnús Guðbrandsson var einn af ungu mönnunum sem hafði fengið sitt uppeldi í lúðrasveitinni og verður að teljast til þeirra sem ruddu poppbraut bítlakynslóðarinar, en hann segir svo frá:
“Það var farið að spila um leið og sest var á skólabekk í Gagganum. Ég var þá enn ekki nema tólf ára því ég er ekki fæddur fyrr en í desember. Í fyrstu hljómsveitinni voru ásamt mér þeir Baldi Júll, Tommi Hertervig og Jósep Blöndal. Þarna í upphafinu var hljóðfærakosturinn ekki upp á marga fiska. Hann samanstóð af einni sneriltrommu sem var lögð ofan á eldhúskoll úr tré þannig að gormarnir snéru upp. Á neðri hluta af nótnastatífi var svo komið fyrir lausum botni úr kökuformi sem átti að virka eins og diskur, en hann þoldi illa meðferðina og entist því ekki sérlega vel. Ég keypti plötugítar af Steingrími Lilliendahl sem hafði áður keypt hann af Ragnari Páli. Þessi gítar hafði verið smíðaður inni á Akureyri í hljóðfærasmiðjunni Streng, en gekk alltaf undir nafninu Saltfiskurinn og ég man að ég borgaði heilar 300 krónur fyrir gripinn á sínum tíma. Ég keypti síðan Framus pickup á hann í hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur sem gerði hann að rafmagnsgítar. Þá var útvarpið á kennarastofunni fengið að láni og spilað í gegn um það. Jóhann skólastjóri var svolítið smeykur um útvarpið í höndunum á okkur og leit einu sinni við á æfingu. Hann spurði hvort það væri nú alveg öruggt að ekki væri hægt að spila á gítarinn útvarpslaust, en við neituðum því alveg afdráttarlaust. Fyrsta söngkerfið var svo risastórt Grundig eða Telefunken segulbandstæki sem skólinn átti og var tengt einum stórum hátalara. Því fylgdi líka mikrófónn og hægt var að kveikja á öllu saman án þess að stillt væri á upptöku. En hljóðið í þessu tæki var hins vegar alveg skelfilega vont og líkast því sem stundum hefur verið kallað veðurstofusánd. En nokkru síðar var Tommi kominn með sex strengja gítarbassa og við hinir með Höfner gítara alveg eins og Bítlarnir. Við eignuðumst svakalega flotta Vox magnara, en hljóðkerfið var samtíningur úr ýmsum áttum. Við fundum m.a. lampamagnara og eitthvað fleira í Alþýðuhúsinu eða Stúkuhúsinu sem einhverjir eldri og reyndari voru búnir að leggja og fórum með þetta dót til Kristins í Bíó. Honum tókst að fá hljóð úr þessu, við tengdum það við hátalara sem við tókum úr gömlum útvörpum, komum fyrir í pappakassa og þetta var síðan notað í einhvern tíma”.
Í byrjun spilaði Baldi Júll yfirleitt á trommur, en stundum stóð hann upp frá þeim og söng. Okkar skoðun var nefnilega sú á þessum tíma að það væri ekki endilega neitt atriði að vera alltaf að spila á trommur í öllum lögum. En þetta breyttist þegar við fórum að spila á skátafundum. Þannig var að Jón Dýrfjörð og Magga systir hans voru mjög drífandi í skátahreyfingunni og það voru haldnir fundir eða skemmtikvöld á mánudagskvöldum í Alþýðuhúsinu sem var svo alltaf slúttað með kakói og kringlum. Við tókum að okkur að spila þarna nokkrum sinnum, en þar sem þetta voru skátasamkomur þótti rétt að gera okkur að meðlimum og Stebbi Jóhanns var settur yfir okkur sem flokksforingi. Deildin fékk nafnið Þrestir og við fengum sérstakan fána með mynd af skógarþresti. Í beinu framhaldi gerðum við Stebba að trommuleikara, en hann hafði áður spilað á klarinett með lúðrasveitinni. Hann tók þetta nýja hlutverk mjög alvarlega og keypti sér flott trommusett hjá Gesti Fanndal, en einnig allar þær Shadowsplötur sem hann náði í. Hann lagðist síðan yfir þær og stúderaði hvert trommuslag og hvert breik hjá Brian Bennett trommara sem hafði þá nýlega verið kosinn besti trommari í heimi í Melody Maker eða einhverju slíku poppriti. Stebbi varð síðan á undrastuttum tíma afburða trommari, en fór snemma suður og var einn af stofnendum hljómsveitarinnar Dáta.
Hljómsveitin Omo fór eina helgina sumarið 1964 í mikinn leiðangur. Hann hófst á föstudagskvöldinu í Alþýðuhúsinu á Akureyri, síðan var spilað í Hlöðufelli á Húsavík á laugardagskvöldinu og svo aftur í Alþýðuhúsinu í bakaleiðinni á sunnudagskvöldinu. Hljómsveitarbíllinn var Austin Gypsy Jeppi og Símon Gests var bílstjórinn. Inn í hann fór öll hljómsveitin og öll hljóðfærin nema trommusettið sem var rækilega bundið niður á toppinn. Nafnið á hljómsveitinni var málað á rúmfjöl sem var svo fest á toppgrindina. Ferðalagið gekk reyndar alveg ljómandi vel nema kannski sunnudagskvöldið, en þá munu hafa verið komin veruleg þreytumerki á bæði gesti og spilara. Auk þeirra sem á myndinni eru, mun Hólmgeir bróðir Hallvarðs hafa spilað með Omo, alla vega um tíma.
Margir til kallaðir og það voru líka margir útvaldir.
Tónlistarlífið á Sigló var eins og risastór suðupottur og frjór jarðvegur fyrir þá sem vildu vera eitthvað og gera eitthvað. Sumir notfærðu sér það til hins ítrasta bæði vel og lengi, en aðrir hrifust tímabundið með straumnum, döðruðu svolítið við tónlistargyðjuna um stundarsakir og höfðu gagn og/eða gaman af.
Og það komu ótrúlega margir við poppsöguna í bænum þessi fyrstu ár og einhverjir eru jafnvel enn að. Þessi nöfn koma upp í hugann: Baldi Júll, Siggi Bald, Gaui Gústa, Maggi Guðbrands, Theodór Júlíusson, Jósep Blöndal, bræðurnir Karl og Steingrímur Lilliendahl, Gestur Guðna, Guðmundur Hafliðason, Guðmundur Víðir Eggertsson, Valgeir Sigurðsson, bræðurnir Hallvarður og Hólmgeir S. Óskarssynir, Elías Þorvalds, Ómar Hauks, Tommi Hertervig, Fribbi Björns, Gísli Blöndal, Guðmundur Víðir (Ói), Mummi Þóroddar, Gísli Blöndal, Stebbi Jóhanns, Árni Jör, Rúnar (Lilli) Egils, Stjáni (Splitt) Jóhannsson, Hjalli Jóns, Magnús Þormar, Þorvaldur Halldórs, Nonni Baddi, Sturlaugur Kristjáns, Gunnar Trausti, Jóhann Skarp, Gummi Ingólfs, Ingvar Björns, Kristján Elíasar, Siggi Hólmsteins, Gummi Ragnars, Sverrir Elefsen, Jónas Halldórs, Bjössi Birgis, Stjáni Hauks, Rabbi Erlends, Óli Ægis…
Gleymi ég ekki einhverjum? Það hlýtur að vera. Bætum þeim þá bara við í næsta blaði.
Og ef ein hljómsveit var fullskipuð, var bara stofnuð önnur. Eða var það ekki annars?
Omo, Los Brilleros, Gibson, Pólar, Ecco, Kanton, Gipson, Trixon, Jöklar, Los Banditos, Stormar, Hrím, Max, Enterprise og Líza, o.fl. o.fl…
Upphaflega skipuðu hljómsveitina Jökla þeir Sverrir Elefsen bassi, Guðmundur Ingólfsson gítar, Guðmundur Víðir einnig á gítar, Kristján Elíasson trommur og Jónas Halldórsson söngur. Kristján hafði á þessum tíma ekki fest kaup á trommusetti og kom Rafn Erlends inn í stað hans fljótlega. Svipað var með Jónas sem lagði ekki í kaup á söngkerfi og dró sig út úr bandinu, en Guðmundur Víðir flutti úr bænum. Jöklarnir voru þó að spila af og til í einhverja mánuði en leystist síðan upp eins og gengur. Eftir eitthvert hlé fóru Rabbi og Sverrir í Max, en Gummi í Hólaskóla í búfræðinám. Þegar hann kom aftur stofnaði hann Enterprise með Jóhanni Skarp á bassa, Kristjáni Elíasar sem nú var kominn með alvöru trommsett, og Bjössa Birgis sem einnig spilaði á gítar. Það var frá þeirri hljómsveit sem bragurinn um Önnu Láru, Bryndísi og Báru sló upphaflega rækilega í gegn og lifir enn góðu lífi.
Hljómsveitin Ecco og var starfandi á árinu 1963. Helmingur meðlima sveitarinnar urðu síðar atvinnutónlistarmenn en hinn helmingurinn kom við sögu á sínum tíma eins og sagt er. Þannig var þetta. Margir voru kallaðir til í upphafinu, en eftir því sem tímar liðu þynntist hópurinn smátt og smátt þar til aðeins lítill hluti hans stóð eftir.
Meðlimir hljómsveitarinnar Ecco voru frá vinstri talið: Gestur Þorsteinsson, Gestur Guðnason. Ingvar Björnsson og Elías Þorvaldsson. Greinilegt er að menn tóku sig alvarlega þarna sem stórglæsilegt hljómsveitardressið ber svo glögglega vitni um. Ingvar segir líka að þarna hafi verið notast við alvöru gítara, svo sem Framus, Hofner, Futurama og auðvitað Vox magnara. Allt gargandi merkjavara síns tíma.
Bandittar í Gaggó bregða á leik.
Það má kannski segja að það hafi verið svolítið annað teymi sem stóð að stofnun hljómsveitarinnar Los Banditos 1963, eða eigum við kannski að segja önnur klíka? Nei það voru auðvitað engar klíkumyndanir í gangi. Menn stofnuðu bara eina hljómsveit og í hana völdust einhverir einstaklingar því það var ekki alltaf pláss fyrir alla á sama stað á sama tíma. Til að byrja með breytti það heilmiklu hvort menn voru árinu eldri eða yngri, en fáeinum árum síðar skipti örlítill aldursmunur engu máli. Svo hættu sumir en aðrir héldu áfram, en á þessum upphafsárum var nóg framboð af kandídötum. Los Banditos kom fyrst fram á bekkjarskemmtum í Gagganum sem nafnlaust númer. Árni Jör sem var formaður skemmtinefndarinnar og Stjáni Splitt gerðu auglýsingaplakatið og vildu setja eitthvað nafn á auglýsinguna. Los Banditos var þá ákveðið af þeim tveimur meðan á auglýsingagerðinni stóð og af hljómsveitarmeðlimunum forspurðum, sem líkaði það greinilega ekkert illa því þeir héldu sig við það allt þar til næsta hljómsveit var stofnuð.
Ég man eftir að hafa farið á skemmtun í Sjómannaheimilinu líklega 1963, en þar voru Gautarnir kjölfestunúmerið. Júlli Júll kynnti þar Los Banditos sem splunkunýja og efnilega pilta, en það voru þeir Rabbi Erlends, Daddi Júll, Gestur Guðna og Ómar Hauks. Júlli gerði það með svolítið sérstökum áherslum. “Los – band – i – dos” heyrðist mér hann segja og var þá alveg viss um að þýðingin á nafninu hlyti að vera “Laust band í dós” og fannst það frábært nafn og stórsniðugt.
Stormar (Lengst af þeir Hallvarður, Theodór, Gestur, Árni, Ómar og Friðbjörn Björns) voru svo stofnaðir upp úr Los Banditos og varð fljótlega ein af vinsælustu unglingahljómsveitum á Norðurlandi. Það má eflaust ekki síst þakka góðri og öflugri markaðssetningu umboðsmannsins Björns Jónassonar síðar Sparisjóðsstjóra. Einnig áttu eftir að koma við sögu hennar þeir Rúnar Egilsson og Rafn Erlendsson á trommur, en einnig Jósep Blöndal á pianó. Sagt er að hljómsveitir hætti aldrei, heldur hvíli sig bara mislengi. Á það líklega betur við um þessa hljómsveit ef eitthvað er en margar aðrar, því nokkrum áratugum síðar hrukku Stormar aftur í gírinn um nokkurra ára bil þó þeir séu í hvíld um þær mundir sem þetta er skrifað. Hljómsveitin rekur líka menningarfélagið Storma sem fær í sinn hlut allar þær greiðslur sem koma til vegna tónlistarflutnings hin síðari ár. Fé þessu er síðan ráðstafað til ýmissa velferðarmála og annarra góðra málefna í Fjallabyggð skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru, en sumt týnist og gleymist í tímans rás því miður. Við skulum því orna okkur við þær minningar sem hafa verið skráðar og ættu að geta glatt hjörtu okkar sem munum þessi ár og fengið þau til að slá örlítið hraðar, en verið hinum sem áhuga kynnu að hafa svolítið poppsögulegt innlegg.
Heimildir: Magnús Guðbrandsson, Árni Jörgensen, Guðmundur Ingólfsson, Alþýðublaðið, Morgunblaðið og Siglfirðingur.
Samantekt: Leó R. Ólason.