Kristjáns saga Elíassonar.
Einn þeirra sem kom meira við sögu á sjöunda áratugnum en margir muna eftir, var Kristján Elíasson. Ég hafði samband við hann og bað hann að segja mér frá aðkomu hans að siglfirska poppinu, en ég mundi þá aðeins eftir honum í Enterprise, Hiroshima og Lizu. Það kom reyndar á daginn eins og oft gerist að margt fer fram hjá mönnum í tímans rás, og það jafnvel þó það hafi verið að gerast því sem næst undir nefinu á þeim því hann bjó í næasta húsi við mig á brekkunni. Hann sendi mér gríðarlega góðan og efnismikinn pistil sem fer hér á eftir.
“Fyrsta hljómsveitin sem ég var í hét Sounds. Hana skipuðu ásamt mér sem lék á trommur, Guðmundur Víðir Vilhjálmsson, kallaður Ói, hann lék á sólógítar, Sverrir Ellefsen á bassa, Hjálmar Jónsson á harmoniku og söngvari var Jónas Halldórsson.
Æfingar fóru fram í kjallaranum að Hverfisgötu 5, en þar bjuggu foreldrar Óa, suðaustur herberginu, einmitt þar sem Alfreð bakari hafði hnoðað í núggatið forðum daga.
Við æfðum einhver lifandis býsn, aðallega instrúmental lög, Shadows og svoleiðis. Ói var mikill Shadows-maður endar svipur með honum og Hank Marvin á þessum árum. Einnig vorum við með Dakotas-lagið Millionaire, ábyggilega æft þúsund sinnum eða meir.
Við vorum bara með eitt sungið lag, en það var vinsælasta lagið í öllum óskalagaþáttum, lagið ”Á sjó” sem Jonni söng af engu minni tilþrifum en Þorvaldur bróðir hans.
Við komum einu sinni fram, spiluðum í pásu hjá Stormum á skólaballi í Gagganum, sennilega haustið 1965.
Mig rámar í að hafa verið í hljómsveit með Guðmundi Ingólfssyni og Sverri Björnssyni eftir þetta og við æfðum í Pólstjörnubragganum, sem stóð sunnan við þar sem Bjarni málari reisti sér seinna lagerhúsnæði. Bjarni Þorsteinsson bóndi hafði umsjón með þessu húsnæði og það var ekkert sjálfsagðara en að lána það okkur undir æfingar.
Næst var það Enterprise. Í henni voru ásamt mér þeir Björn Birgisson, Kristján Hauksson og Jóhann Skarphéðinsson. Í fyrstu var æft í stofunni heima hjá Bjössa og í saumaherberginu heima hjá Stjána, við misjafnar undirtektir húsráðenda.
Nafnið kom held ég til af því að okkur fannst þetta vera talsvert fyrirtæki, (e. Enterprise ) og það situr eitthvað svo fast í minni mér að flugmóðurskipið Enterprise hafi einnig eitthvað spilað inn í, en afhverju? Hef ekki glóru. Kannski vegna þess að það var fyrsta kjarnorkuknúna flugmóðurskipið og kjarnorka var mikið til umræðu á þessum tíma.
” Here comes the group named Enterprise” byrjaði kynningarlagið okkar og síðan Searches gítarspil og raddað og allt, ( ef við höfðum þá mikrófón ), og þetta var, já, talsvert fyrirtæki, fannst okkur þá. Svona eftir á að hyggja finnst mér ég heyra í Searches þegar ég minnist þessarar hljómsveitar og kannski ekki að ófyrirsynju; Bjössi var mikill Searches-maður og réði miklu í bandinu.
Svo fengum við að æfa í Sjálfstæðishúsinu og tókum það svo á leigu eitt sumar. Það var mikið brallað og þá voru Gummi Ingólfs og Guðmundur Ragnarsson komnir í stað Stjána Hauks og Jóa Skarp og spilastíllinn orðinn öllu þyngri; ”Here comes the sun” og allskonar blúsar og Anna Lára í ska-takti og svoleiðis stöff. Böll voru haldin um hverja helgi, reyndar misvel sótt. Stundum voru tveir eða þrír en stundum alveg stappað, fór vitaskuld eftir því hvað annað var um að vera í bænum.
Svo kom Hiroshima og þá ætlaði nú allt um koll að keyra, eða þannig. Það vorum við Gummi Ingólfs, Sigurður Hólmsteinsson og Gummi Ragnars sem stóðum að því bandi og æfðum í Borgarkaffi. Þetta var býsna vanmetið band. Hómsteinsson á Rickerbackerinn var magnaður og Gummi Ingólfs gat nú bara sungið allt!!!
Við spiluðum ekkert voðalega mikið, svona eitt og eitt skólaball. Það var allt í lagi að spila á skólaböllunum en djöfullegt að fá borgað fyrir það enda var það Kristján Lúðvík sem sá um þá fáu aura sem inn komu og sat fast á þeim.
Það kom fyrir að þessar hljómsveitir sem ég var í spiluðu á jólaböllum og er það einhver hallærislegasta vinna sem ég hef innt af hendi og alltaf hét ég því að gera þetta aldrei aftur, en það var borgað fyrir þetta og mann vantaði alltaf aur.
Af einhverjum ástæðum vorum við beðnir um að spila á balli í Menntaskólanum á Akureyri og þótti okkur talsvert til þess koma að þurfa að leggjast í ferðalög. Ingólfur í Höfn, pabbi Gumma, átti þá Landrover, sem Gummi fékk stundum lánaðann og við rúntuðum á mörg kvöldin og á sama tíma var Gunnar Júlíusson á rúntinum á jeppa sömu tegundar sem Júlíus Gunnlaugsson pabbi hans átti og þegar kom að því að koma hljómsveitinni inn á Akureyri var kominn vetur og engum fært nema vel búnum Landrover jeppum. Með herkjum tókst okkur að troða græjunum og mannskapnum inn í Ingólfs- og Júlíusartröllin ásamt því að binda hluta tólanna upp á þök þeirra. Við vorum a.m.k. átta, ef ekki níu, sem fórum þessa ferð, sumir voru að taka kjéllingarnar með og svona. Það gekk ljómandi í fyrstu eða þar til við vorum að komast upp á Öxnadalsheiðina. Snjóföl á veginum, skítakuldi og næs og sem við ökum þarna sjáum við, í Ingólfströllinu hvar hjól undan bíl skoppar á fullri ferð fram úr okkur og þótti það mjög fyndið, þar til kom í ljós stuttu seinna að þetta var hægra afturhjólið undan okkar bíl. Svo vel var bíllinn lestaður að hann hélt fullu jafnvægi á þremur hjólum. Þarna rétt hjá var bóndabær og er mér ógleymanlegt hvað bændurnir þar voru hjálpsamir. Eftir nokkurra klukkutíma töf héldum við síðan áfram ferð en vegna tafarinnar náðum við ekki að prófa hljóðfærin eða stilla þau saman neitt að ráði áður en ballið hófst. Hvort það var þess vegna eða bara vegna þess hvernig við spiluðum sem skólameistarinn kom til okkar og bað okkur vinsamlegast að lækka, veit ég ekki, en allavega, honum varð ekki kápan úr því klæðinu. Við spiluðum eitt rólegt lag og þrusuðum svo öllu í botn, það bara varð að vera í botni!!!
Heimleiðis komumst við síðan klakklaust, eða þannig. Á þaki Ingólfströllsins vorum við með forláta hátalarasúlur, sem við höfðum smíðað sjálfir og voru ”dúndur” fínar, grænar og gular, minnir mig. Nema hvað að við erum rétt búina að beygja inn á Siglufjarðarleið þegar súlurnar fljúga fram af Ingólfströllinu og í götuna, munaði minnstu að við keyrðum yfir þær, en það slapp og merkilegt nokk þá virkuðu þær alveg eins vel á eftir”.
Þegar hér var komið sögu var Eiður Örn Eiðsson, Eiður ”Plant” nýfluttur í bæinn og rakst inn á æfingu hjá okkur í Borgarkaffi. Hann sýndi áhuga á að syngja með okkur og eftir eitt prufulag var hann tekinn í bandið. Þórhallur Benediktsson kom inn í bandið skömmu síðar fyrir Gumma Ingólfs eða Sigga Hómsteins, eða þá báða og smám saman þróuðumst við út í þungarokkið, Zeppelin, Deep Purple, Uriah Heep, Jethro Tull, John Mayall Bluesbreakers og fleiri álíka, og þetta varð alveg hrikalega þétt band, þó ég segi sjálfur frá.
Við fengum að æfa í gamalli beitingaaðstöðu á neðstu hæð Æskulýðsheimilisins og þar gerðum við ýmislegt til að bæta aðstöðuna, máluðum leiktjöld með þess tíma boðskap o.fl. Gamall siglfirskur leikari kom eitt sinn á æfingu hjá okkur og er hann sá mynd á veggnum féll hann á kné og fór með langa rullu sem Skrattinn í Gullna hliðinu og grétum við félagarnir af hlátri því tilburðirnir voru frábærir hjá þeim gamla.
Eins var með þessa hljómsveit og aðrar sem ég var í; við spiluðum ekkert voðalega mikið opinberlega. Ég man eftir einu balli í Alþýðuhúsinu þar sem allt gekk á afturfótunum. Til þess að ná símasoundinu í míkrafóninum í Aqualong skrúfuðum við hausinn af mæknum í viðeigandi hluta lagsins, og síðan á aftur og þá varð sándið eðlilegt, og gekk alltaf vel þar til á þessu balli að símasándið fór ekki, sama hvað reynt var að skrúfa hausinn oft af og aftur á.
Á þessum tíma höfðu menn uppgötvað að með því að nota 30watta VOX gítarmagnara mátti ná svona dirty-sándi án þess að nota önnur breytitæki s.s. föss og svoleiðis og notuðu öll stærstu böndin þetta, Hljómar o. fl. Tóti varð sér úti um svona magnara og virkaði svaka flott, sándið var rosalegt og Siglufjarðar-Hendrixinn brilleraði. En á þessu balli sprakk hátalarinn í magnaranum, sándið varð svo rifið að það varð næstum því á sama leveli og míkrofónninn. En þetta kvöld reddaðist nú alveg þokkalega samt.
Engar hljómsveitir komu til Siglufjarðar til að halda tónleika á þessum árum og einhverjum datt í hug að halda eina slíka í Bíóinu og fá til leiks allar hljómsveitir bæjarins, að undanteknum Gautum og öðrum ”gömludansaböndum”.
Oddur Thorarensen var allur af vilja gerður til að aðstoða okkur og hafði lúmskt gaman af. Auk Lízu kom Frum þarna fram, sennilega í fyrsta skiptið, eða í eitt af fyrstu skiptunum. Gummi Ingólfs var með hljómsveit man ég, sem spilaði lengsta lag sem ég hafði heyrt þá, fílósóferingu um lífið, ”Hver ert þú og hver er ég” minnir mig að það héti. Einhverjar fleiri hljómsveitir voru þarna þó ég muni ekki eftir þeim. Vinkonur okkar Halldóra Jónasdóttir, Lilja Eiðsdóttir og Margrét Steingrímsdóttir ásamt Gumma Ragnars voru með það sem í dag eru kallaðir sketsar, smá leik atriði, ádeilur á þjóðfélagið og leikræna túlkun á bæjarlífinu. Og Doddi Gerðu, Þorsteinn Guðmundsson, sá um að tilkynna áhorfendum hvenær þeir áttu hlægja, á réttu augnabliki, að hans áliti, og var hann veifandi tilkynningaskiltum sínum í tíma og ótíma.
Þessir tónleikar þóttu takast vel, þó ekki væru þeir neitt sérstaklega vel sóttir, en þeir sem fram komu og þeir sem borguðu sig inn gleyma þessu framtaki aldrei, þetta var svo hrikalega gaman”.
Svo mörg voru þau orð.
Tramps, Rauðu Varðliðarnir og Attac.
Gunnar Trausti Guðbjörnsson setti fyrir nokkrum árum síðan inn eina af sínum frábæru færslum á Facebook um aðkomu sína að stórhljómsveitinni Tramps sem ég leyfði mér að “fá lánaða”.
“Um svipað leyti og The Beatles komu til Siglufjarðar og Sverrir Jóns kom úr sveitinni með hár niður á herðar, stofnuðum við Nonni Baddi, Þolli, Jói Skarp og ég hljómsveit. Ég fórnaði næstum 0 krónum í kaup á dægurlagtextahefti vegna þess að í því voru bítlatextar við bítlalög. Eftir mikið japl, jaml og fuður komum við okkur niður á nafn. Ebba systir Jóa hafði lánað honum enska orðabók. Það er til marks um eljuna að við fundum ekki nothæft nafn fyrr en í T-unum: TRAMPS! – Það þýðir flækingar, sagði Jói. Tramps vann sér það helst til frægðar að syngja og spila heima hjá Nonna Badda þegar að Hadda og Hannes voru ekki heima. Nonni spilaði á potta með sleifum. Þolli söng í þeytaraspaða (hann var nefnilega bróðir Þorvaldar á sjó) og við Jói spiluðum á kúst og skrúbb og sungum í standlampa sem hægt var að hækka og lækka eins og hljóðnema. Vinsælasta lag þessarar geðþekku hljómsveitar var tvímælalaust Pretty women efir Roy heitinn Orbison. Tramps komu einu sinni fram opinberlega í Æskulýðsheimilinu við gífurlegan fögnuð æstra ´53 árgangs grúppía og þaðan af yngri kvenna”.
Óli Ægis, Siggi Hólmsteins, Nonni Baddi og Þolli. Ekki er vitað hvort einhverjir hafa fallið utan mynflatarins og hvort þetta gæti hafa verið fyrsti vísirinn af Rauðu Varðliðunum. Myndin er úr einkasafni Sigga Hólmsteins.
Það hefur líklega liðið einhver tími frá því að Tramps andaðist og þar til stofnað var til Rauðu Varðliðanna, en þar var Gunnar reyndar ekki með. Þá hljómsveit skipuðu þeir Siggi Hólmsteins, Sturlaugur Kristjáns, Jón Baldvin Hannesson eða Nonni Baddi og Guðmundur Ragnarsson, en fleiri munu þó hafa komið eitthvað við sögu. Óli Ægis og Þolli (Þorleifur Halldórsson) í upphafi, en einnig Guðjón, strákur frá Seyðisfirði módel 1951 sem var í Gagganum einn vetur. Kannski var sá síðast nefndi bara gesta eða afleysingaspilari í fá skipti. Flestir voru fæddir 1953 og urðu fljótlega hálfgerðar barnastjörnur á Sigló, enda ekki nema 12-13 ára gamlir. Þessir drengir spiluðu talsvert á unglingaböllum í Æskó en líka eitthvað í Gagganum. En eins og gjarnt er um unglingahljómsveitir lifði hún ekki mjög lengi og lagðist af þegar Siggi Hólmsteins sem var eldri, fór í M.A. Hann fór hins vegar að spila á Akureyri á menntaskólaárum sínum með nokkrum af Bravó Bítlunum, m.a. til að eiga fyrir “nauðþurftum” um helgar eins og hann tæpti á þegar ég talaði við hann.
Eftir að Varðliðarnir voru allir, var auðvitað fljótlega stofnað til annarrar hljómsveitar. Sú nefndist Attac og var skipuð sömu drengjum að öðru leyti en því, að þar var Gunnar Trausti kominn aftur í bransann í staðinn fyrir Sigga Hólmsteins og hefur síðan þá átt það til að titla sig rytmagítarleikara á góðum stundum. Nú voru allir meðlimirnir módel ´53 og Attac var aðal unglinga og skólahljómsveitin í Gagganum við Hlíðarveg meðan hún starfaði. Þarna sungu allir og nokkuð var um raddaðan söng. Gunnar söng gjarnan Bee Gees lögin og ég tel mig hafa nokkuð öruggar heimildir fyrir því að stúlkurnar í sama bekk og jafnvel fleirum, hafi vel kunnað að meta þær undurljúfu og draumkenndu melódíur í flutningi hans.
Hljómsveitin Hendrix var nefnd eftir gítargoðinu.
það mun að öllum líkindum hafa verið öðru hvoru megin við áramótin 1968/69 að þrír ungir menn rétt ófermdir fóru að æfa saman. Þórhallur Ben á gítar, Viddi “Bö” Jóhannsson á bassa og Óttar Bjarna á trommur. Líklega var það svo Óttar sem stakk upp á að fá orgelleikara í bandið og mun hafa bent á þann sem þetta ritar, því Óttar vissi til þess að það væri til nærri því aldargamalt fótstigið orgel heim hjá mér. Ég taldist því væntanlega líklegri en aðrir til að geta spilað eitthvað á slíkt hljóðfæri. Það reyndist þó ekki vera svo, því ég gat varla komist í gegn um Gamla Nóa klakklaust, en var engu að síður ráðinn formlega í bandið. Og menn dóu ekki ráðalausir, því Óttari hafði verið komið í píanótíma hjá Gerhard Schmidt sem var nokkuð sem hann hafði minna en engan áhuga á, en hafði hins vegar talsverða löngun til að berja húðir. Hann eygði þá kærkomna undankomuleið út úr píanótímunum með aðkomu minni og samdi við Gerhard um að ég yfirtæki tímana hans, en á þessum árum var oft langur biðlisti inn í Tónskóla Siglufjarðar. Þetta var síðan samþykkt af öllum aðilum okkur bæði til svolítillar furðu, en allmikils léttis. Þá var næsta mál að komast yfir rafmagnsorgel, en sá hluti málsins leystist einnig farsællega. Ég fékk notaða Teiscord “fjöl” keypta af Sigga Hólmsteins í fyrirfram gefna fermingargjöf, ásamt ágætum Teisco magnara og reyndust þessar græjur þegar frá leið mikill örlagavaldur í mínu lífi.
Fyrir tilkomu orgelsins mætti ég alltaf á æfingarnar, þó svo ég gerði ekkert annað en að “horfa á” eða öllu heldur “hlusta á” hina strákana æfa. Einn daginn kom nýr maður á hljómsveitaræfingu og við sátum þarna báðir og hlustuðum á hina spila Baby come back, I´m beleaver og Land of the thousend dances ásamt fleiri lögum sem þá voru komin á prógrammið. Þessi nýi maður var Guðni Sveins og mér var sagt að hann væri nú genginn í hljómsveitina sem rythmagítarleikari, en Þórhallur yrði því héðan í frá sólógítarleikari
Áður en ég komst í einhvern alvöru gang með bandinu var Guðni búinn að ná ágætum tökum á gamla Fender Jazzmasternum sínum sem hann pússaði upp og lakkaði kolbikasvartan.
Mér fannst það samt pínulítið súrt í broti að inn kæmi maður á eftir mér sem spændi síðan fram úr mér á tónlistarsviðinu, en ég gat samt lítið annað en setið hjá og horft upp á þessi ósköp gerast. Ég er heldur ekki frá því að ég hafi fundið fyrir örlitlum straumum öfundar og afbrýðissemi vegna þessarar þróunar, en það lagaðist samt allt þegar frá leið og ég var farinn að kunna eitthvað svolítið fyrir mér. Þökk sé Gerhard Schmidth þeim frábæra kennara, en hann vissi alveg hvað hann var að gera, þegar hann sendi mig heim með nótur með heitustu popplögunum í staðinn fyrir þurrar léttklassískar fingraæfingar, en ég drakk að sjálfsögðu þessi æfingarverkefni í mig eins og langþyrstur maður. Um vorið vorum við komnir með ein þrettán lög og spiluðum á fyrsta ballinu okkar í Æskó og fengum fyrir það nokkra hundraðkalla á mann. Það verður að teljast nokkuð gott að fá greitt fyrir allra fyrsta giggið sitt, og ekki síst þegar maður er aðeins 14 ára.
Nokkrir drengir sem tímdu ekki að borga sig inn, flestir fæddir árið ´53, norpuðu fyrir utan í kvöldsvalanum og hlustuðu.
Leó R. Ólason.
Heimildarmenn: Kristján Elíasson, Ingvar Björnsson, Guðmundur Ragnarsson, Gunnar Trausti Guðbjörnsson, Sigurður Hólmsteinsson.