Ráðherra heimsótti Menntaskólann á Tröllaskaga
– heimsóknirnar hluti af víðtæku samráði um nýtt skipulag framhaldsskólastigsins
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, heimsótti í gær, fimmtudaginn 23. október Menntaskólann á Tröllaskaga í tengslum við boðað samráð um fyrirhugaðar breytingar á skipulagi opinberra framhaldsskóla. Markmið breytinganna er að efla framhaldsskólastigið, styrkja starfsemi skólanna og bæta þjónustu við nemendur um land allt.
Í heimsókninni ræddi ráðherrann við kennara, starfsfólk og nemendur um starfsemi skólanna og hvernig nýtt skipulag gæti styrkt daglegt starf og stuðning við nemendur. Hann kynnti jafnframt helstu áherslur breytinganna, þar sem lögð er áhersla á skýrara hlutverk svæðisskrifstofa og nánara samstarf milli ráðuneytisins, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og einstakra framhaldsskóla.
Gagnlegar ábendingar komið fram á fundum
Á fundum ráðherra með kennurum og starfsfólki skólanna hafa komið fram fjölmargar gagnlegar ábendingar sem lofa góðu um framhaldið. Samstaða ríkir um að þörf sé á auknum stuðningi við starfsemi framhaldsskólanna og sérstaklega við nemendur. Meðal þess sem komið hefur fram er:
– Að æskilegt sé að færa tiltekna þjónustu og ráðgjöf við framhaldsskóla frá ráðuneytinu til annars aðila. Þannig verði hægt að aðgreina stefnumótunar-, eftirlits- og úrskurðarhlutverk ráðuneytisins frá þjónustu og ráðgjöf við rekstur og stjórnsýslu skólanna.
– Mikilvægt sé að skýra ábyrgð skólameistara og hlutverk þeirra í nýju stjórnskipulagi og að ekki sé æskilegt að færa daglegar stjórnunarheimildir frá þeim, til dæmis varðandi rekstur og ráðningar.
Ráðherra hefur þegar tekið afstöðu til þessa og ákveðið að framhaldsskólarnir haldi sínum daglegu stjórnunarheimildum í nýju skipulagi, bæði hvað varðar ráðningar og rekstur.
Allir opinberu framhaldsskólarnir heimsóttir
Heimsóknir ráðherrans eru mikilvægur hluti af samráðsferli sem hófst í lok september með vinnufundi allra skólameistara landsins. Nú þegar hefur Guðmundur Ingi heimsótt 15 framhaldsskóla og stefnir á að ljúka heimsóknum í alla 27 opinberu framhaldsskólana fyrir lok nóvember.
Með þessum heimsóknum vill ráðherra tryggja að sjónarmið starfsfólks og nemenda endurspeglist skýrt í endanlegu skipulagi og að framtíðarlausnir byggist á raunverulegri reynslu og þekkingu innan skólanna sjálfra.
Á aðsendri mynd má sjá Láru Stefánsdóttur, skólameistara og Guðmund Inga Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra.

