Íslenski ferðaklasinn, gegnum verkefnið Nordic Regenerative Tourism (sjá www.norreg.is), stendur fyrir ráðstefnu á Siglufirði og Hólum um nærandi ferðaþjónustu á Norðurlöndum, þar sem þátt taka fyrirlesarar víða að. 
Á ráðstefnunni verður kafað ofan í tengingu nærandi ferðaþjónustu við aðrar atvinnugreinar, s.s. landbúnað og arkítektúr/hönnun og síðan verða skoðaðir mismunandi geirar ferðaþjónustunnar út frá sjónarhorni nærandi ferðaþjónustu.

Meginmarkmið verkefnisins er að að innleiða aðferðafræði nærandi ferðaþjónustu hjá litlum og örsmáum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, auk þess að þróa stuðningsleiðir fyrir þau og áfangastaðastofur (DMO) í þeirri vinnu. Jafnframt hafa sérstök verkfæri og matsaðferðir verið þróuð til að auðvelda fyrirtækjum að vinna með þessi nýju hugtök. Þá hefur verkefnið einnig lagt grunn að aðferðum fyrir stefnumótun opinberra aðila, bæði á sviðið svæðisbundinnar þróunar og heildstæðrar stefnumótunar stjórnvalda, einsog vinna við aðgerðaráætlun um framtíðarsýn ferðaþjónustu til 2030 ber vitni um.

Í mars 2025 verður lokaráðstefna verkefnisins NorReg haldin á Siglufirði og á Hólum.
Áhersla verður lögð á að ráðstefnan einkennist af fjörlegum umræðum og skoðanaskiptum. Því er ánægjulegt að hafa fengið Háskólann á Hólum til liðs við skipulagningu og framkvæmd, enda hefur Dr. Jessica Aquino, dósent við háskólann, leitt þátttöku fræðasamfélagsins innan verkefnisins. Í því ljósi er fyrirhugað að annar ráðstefnudaganna fari fram á Siglufirði og hinn á Hólum, þannig fá ráðstefnugestir einstakt tækifæri til að upplifa Norðurland í vetrarbúningi.

Dagskráin mun veita innsýn í forsendur nærandi ferðaþjónustu og tengsl hennar og uppruna í öðrum atvinnugreinum, s.s. í landbúnaði og hönnun. Kynnt verða dæmi um starfsemi sem samræmast markmiðum nærandi ferðaþjónustu, ásamt því að fjallað verður um leiðir til að tryggja framtíðarsýn þessarar nálgunar í þróun ferðaþjónustunnar.

Vefsíða ráðstefnunnar veitir nánari upplýsingar:

Skoða ráðstefnusíðu hér.