Frá og með 1. september 2025 verður tekið í notkun rafrænt „klippikort“ sem skal framvísa þegar komið er með sorp á móttökustöðvar á Siglufirði og Ólafsfirði.
Rafræna kortið veitir aðgang að svæðinu og því er nauðsynlegt að hafa það meðferðis þegar farið er á gámasvæði, hvort sem um gjaldskyldan eða ógjaldskyldan úrgang er að ræða. Þegar komið er með gjaldskylt sorp á móttökustöð er kortið skannað af starfsmanni móttökustöðvar. Einungis er klippt af kortinu fyrir gjaldskyldan úrgang og tekið er á móti ógjaldskyldum úrgangi án þess að klippa af kortinu (endurvinnanlegum úrgangi eins og pappír og pappa, plasti, gleri o.s.frv.).
Hvert heimili fær 16 skipta kort til að nota yfir almanaksárið. Skráðir eigendur fasteigna sem fá greiðsluseðla fyrir sorpgjald (fasteignagjöld) geta sótt kortin inn á https://fjallakort.is/ . Valið er “Klippikort fyrir gámasvæði Fjallabyggðar”, svo rétt tegund korts sem við á og smellt á rafræna innskráningu. Ef innskráður notandi á rétt á kortinu án endurgjalds breytist verðið á kortinu í 0 kr. Athugið að setja þarf kortið í rafrænt veski í símanum svo það virki.
Þeir aðilar sem ekki eru með rafrænt veski geta prentað út klippikortið og látið skanna kóðan á klippikortinu á sorpmóttökustöð. Eftir að klippikortið hefur verið sótt í síma er hægt að deila því áfram á aðra íbúa húsnæðisins til notkunar. Þannig geta fleiri en einn verið með sama klippikortið í símanum sínum.
Þegar komið er með sorp á móttökustöð er kóðinn á kortinu skannaður af starfsmanni móttökustöðvar. Ekkert þarf að greiða fyrir ógjaldskyldan úrgang en tekið er af kortinu fyrir allan gjaldskyldan úrgang. Hvert klipp gildir fyrir allt að 0,25 m3. Á hverju korti eru 16 skipti, sem duga samtals fyrir 4,0 m3.
Að öllu jöfnu ætti hvert kort að duga út árið. En ef kort klárast er hægt að kaupa auka kort á https://fjallakort.is/
Nokkur atriði varðandi rafræn klippikort:
- Kortin eru sótt inn áhttps://fjallakort.is/
- Notandi notar rafræna innskráningu til að auðkenna sig.
- Skráðir eigendur fasteigna sem fá til sín greiðsluseðla vegna sorpgjalds (fasteignagjöld) geta sótt 16 skipta klippikort sér að kostnaðarlausu. Athugið að þeir eigendur sem ekki fá til sín greiðsluseðla geta ekki sótt kortið nema greiða fyrir eins og um viðbótarkort sé að ræða.
- Kortið er vistað í rafrænu veski t.d SmartWallet fyrir Android síma eða Apple Wallet fyrir Iphone síma. Þetta virkar eins og kort í líkamsrækt og sundlaugar Fjallabyggðar.
- Þeir sem ekki eru með snjallsíma eða vilja ekki nýta sér rafræna kortið í símanum geta prentað út kortið og notað á sorpmóttökustöðum. Passa þarf að QR kóðinn sem er á klippikortinu sé vel sýnilegur svo hægt sé að skanna hann.
- Hægt er að deila kortinu til annarra. Þegar að búið er að sækja kortið í síma er hægt að deila kortinu áfram til annarra aðila. Þannig er hægt að deila kortinu áfram til annarra einstaklinga sem búa í sömu fasteign, til leigjanda í viðkomandi fasteign o.s.frv.
- Fasteignaeigendur geta komið á bæjarskrifstofur Fjallabyggðar á Siglufirði og Ólafsfirði og fengið útprentað kort með QR kóða sem er skannaður við komu á gámastöð.
Mikilvægi flokkunar
Með flokkun til endurvinnslu minnkar magn þess úrgangs sem endar í urðun. Þannig er umhverfið verndað samhliða því sem förgunargjöld lækka.
Megnið af því efni sem kemur inn á móttökustöð er endurnýtt með einum eða öðrum hætti. Þannig er úrgangi breytt í verðmæti og fyrir skil á slíkum úrgangi þarf ekki að greiða. Fyrir annað efni, sem þarfnast sérstakrar meðhöndlunar, þarf að greiða fyrir.
Með því að flokka rétt er komið í veg fyrir sóun verðmæta og tryggt er að eingöngu sé greitt þegar við á.
Góð ráð:
Best er að flokka farminn áður en komið er á móttökustöð. Ef úrgangur kemur blandaður saman (gjaldskylt og ógjaldskylt) þarf að greiða fyrir allan úrganginn.
Nánari upplýsingar má fá í ráðhúsi Fjallabyggðar í síma 464-9100 eða í tölvupósti taeknideild@fjallabyggd.is