Eitt sinn fór ég í Siglufjarðarmessu, í tilefni kaupstaðarafmælis, í Grafavogskirkju til séra Vigfúsar Þórs Árnasonar. Viti menn, séra Vigfús Þór, fór að tala um séra Bjarna Þorsteinsson skipulagsstjóra á lóðinni, gamla Hvanneyrahreppi og samkomulagið hans við Rafveitu Siglufjarðar, um afnotarétt af vatni í 7 þumlunga röri úr Hvanneyrará inn í Ljósastöðina á Siglufirði. En þar réði afi minn ríkjum lengi vél.
Ég fór stundum út í Hvanneyrarbraut 25 til afa Jóns Kristjánssonar rafvélavirkja, er hann var búinn að vinna á daginn. Var ég að forvitnast um rafmagn og hvernig maður smíðaði netanálar, af öllum stærðum og gerðum. Ég ætlaði sko að verða rafvélavirki eins og hann afi minn.

Fyrsti rafveitustjóri á Siglufirði er sennilega Ásgeir Bjarnason sem var rafmagnsverkfræðingur, menntaður í Karlsruhe í Þýskalandi. Þar kynntist hann Ömmu Fridel. Hann var líka eftirlitsmaður fyrir sveitarfélagið Siglufjörð með byggingu Skeiðfossvirkjun í Fljótum Skagafirði að ég held.

Þegar farið er að byggja síldarverksmiðjuna SR 46, er Ásgeir Bjarnason ráðinn þangað, til að fylgjast með tengingu fyrir riðstraum, sem átti að vera þar, til að drífa mótora og fleira. Þetta ár tekur þá Jón Kristjánsson Rafvélavirki, afi minn, við starfi rafveitustjóra á Siglufirði.

Séra Vigfús sagði okkur þarna í afmælismessunni, að samningur Séra Bjarna og bæjaryfirvalda fyrir hönd Skeiðfossvirkjun væri þannig.

„Rafveita Siglufjarðar skyldi kynda upp og lýsa Siglufjarðarkirkju á meðan hún stæði í sveitarfélaginu, það er ævilangt“.

Þar með er ljósastöðin reist og tekin í notkun þann 18. desember 1913 sem virkjun í Hvanneyrará. Orka frá henni dugði til þess að lýsa upp allan bæinn. Afl hennar var um það bil 31 KW það er 40 hestöfl. Reistir höfðu verið tré ljósastaurar með fram öllum götum í bænum. Var svo tengingin þeirra á milli með loftlínum. Starfsmenn sem sáu um línurnar voru kallaðir línumenn. Svo var bænum skipt í hverfi fyrir línumennina. Ingólfur í Höfn var lengi vel línumaður í suðurbænum. Línumaður í norðurbæ bjó lengi vel í Mjóstræti minnir mig.

Á þessum tíma var Siglufjörður einn af stærstu kaupstöðum landsins. Einnig með mjög hátt hlutfall útflutningstekna.

Þessi dagur 18. desember 1913 var hátíðisdagur í Siglufirði. Komu bæjarbúar þarna saman í barnaskólahúsinu, sem einnig var verið að vígja. Minntust menn þar sigrana í rafveitu og menntamálum staðarins. Söfnunarþró og stífla voru byggðar upp í Hvanneyrarskál, þaðan lá 7 þuml. víð stálpípa neðanjarðar niður hlíðina og inn í stöðvarhúsið.

Undirbúningur á smíði Skeiðfossvirkjun hefur sennilega hafist 1921 með kaupum á jörðinni Skeiðum í fljótum ásamt hlunnindum og vatnsréttindum. Á afmælisdeginum mínum 29. apríl, að vísu árið 1945 var virkjunin svo tekin til starfa og hugsuð fyrir allt að 11 GWst með tveimur vélum.

Gautastaðir voru til dæmis lagðir undir vatn. Fengu ábúendur nýja jörð mikið neðar og reistu þar Gautland.

Seinni virkjunin við Skeiðsfoss, Neðri virkjun, var tekin í notkun 20. október 1976. Þau árin ver ég á hrærivélinni Guðmundar og Steingríms og þeir aftur til skiptis á krananum.

Í eitt skiptið er við vorum að klára að steypa við neðrivirkjun Skeiðsfoss, vorum við beðnir að steypa íbúðarhús á Brúnastöðum.

Þá kom til mín stór maður, klappaði þéttingsfast á öxlina á mér. Spurði hann hvort ég hafi verið að vinna fyrir skemmstu hjá Lagmetisiðjunni Siglósíld á þungavinnutækjum til flutnings á síldartunnum til vinnslu. Sagðist maður þessi staddur á Brúnastöðum vera yfirmaður lögreglunnar í Skagafirði.

Var hann að leita að hákarli sem hafði horfið sporlaust við Ketilstöðvarhús SR á Siglufirði sem var nálægt mínum gömlu vinnustöðum, það er Siglósíld. Gaf hann sterklega í skin að ég og tækið er ég hafði unnið á, hafi getað komið þar við sögu.

Ég svarði af mér allan grun, en varð að lofa honum, bragarbót á málinu innan fjögurra daga.

Bændum í Fljótunum þótti ansi hart að mér vegið þarna saklausum manninum eða þannig.

Það þykir alveg dagsannað að sjómenn er komu til löndunar á Siglufirði þessa daganna, greindu sín í milli frá því í talstöðvum sínum, að þeir sáu veru stóra, er líktist hákarli, svífa í mikilli hæð, norðan við Síldarverksmiðjurnar af og til, þarna þessa daganna. Og ekki lýgur Siglufjarðarradíó.

Er ég var í Vélskóla Siglufjarðar í tvo vetur, fórum við nemendurnir að heimsækja Helga Antonsson upp í Ljósastöð. Þar voru þrjár vélar í notkun. Sú elsta var þarna vatnstúrbínan (antikvélin), svo voru 2 Catepillar vélar og svo stór Man vél minnir mig. Það var haft að orði að 7 þumlunga leiðslan séra Bjarna gæti ekki annað kælivatni á fleiri vélar þarna, um þessar mundir.

Á þessum árunum 1974 til 1976 þegar vélskóli var starfræktur sem framhaldsbraut á Siglufirði var Sverrir Sveinsson rafveitustjóri og kennari við skólann. Oft var okkur tíðrætt um umframorku Skeiðfossvirkjunarinnar. Eitt skipti var það að Sverrir kvaðst þurfa að vera varamaður á þingi eina viku. Spurði hann okkur nemendurna um, hvað hann atti að flytja sem frumvarp til laga, í þessari ferð sinni suður á bogin.

Atkvæðagreiðslan fór þannig að jarðgöng í austurátt gegnum Héðinsfjörð til Ólafsfjarðar fékk flest atkvæði nemendanna.

Eitt skipti er Sverrir Sveinsson var með próf, var spurningin þannig. Hvað fer mikil orka í að hita einn lítra af vatni, upp um eina gráðu?

Einn drengur svaraði:

V, C, og delta T
með ufsilon, í milli.
Mót meira t, komma 86
og kraftur sinnum, nýtni.

Fékk drengurinn hrós fyrir vikið.

Eitt það síðasta sem ég man að afi minn gerði, sem starfsmaður Rafveitunnar, var að taka í notkun stóru CM vélina í Ljósastöðinni. Þá er Sverrir Sveinsson tekinn við rafveitustöðunni af afa mínum Jóni Kristjánssyni frá Lambanesi.

Fyrsti stjórnarformaður Rafveitunefndar Siglufjarðar hefur verið séra Bjarni Þorsteinsson.

Þjóðsagan af fljótum og vatninu þarna áður en virkjunin er reist er sögð vera þannig:

„Þegar snjóa leysti, var hægt að slá grasið fullsprottið undan snjónum á fjórða degi. Grasið þurfti bara að reisa sig upp eftir snjóþyngslin“.

Hin sagan er frá Háskóla Íslands og hljóðar þannig:

“Mesta snjódýpt sem mælst hefur á Íslandi er 279 cm við Skeiðsfossvirkjun 19. mars árið 1995.”

Á vísindavef Háskóla Íslands segir orðrétt.

„Á Íslandi átti fyrsta virkjun vatns til raforkuframleiðslu sér stað árið 1904 og það markar upphaf raforkuframleiðslu á landinu. Þá var Lækurinn í Hafnarfirði virkjaður af þeim Jóhannesi Reykdal og Halldóri Guðmundssyni sem settu upp rafal sem fyrst var nýttur til að kveikja rafmagnsljós í 15 húsum og fjögur götuljós. Elliðaárnar í Reykjavík voru síðan virkjaðar og þar var gangsett rafstöð árið 1921

Texti: Viðar Jóhannsson.
Samsettar myndir úr Danskri verkfræðingaskýrslu um Skeiðfossvirkjun.
Aðrar myndir: Síldarminjasafn Íslands.
Teikning: Hafliði Guðmundsson.