Áætlað er að um 1.200 manns hafi verið á tónleikum sem haldnir voru í Borgarvirki um nýliðna helgi. Tónleikar sem þessir eru fastur liður í hátíðinni Eldur í Húnaþingi, sem fram fór 25. – 29. júlí s.l. og var nú haldin í 16. sinn.

Talið er að um 1.200 manns hafi verið í Borgarvirki á tónleikunum

 

Félagarnir Sverrir Bergman og Halldór Gunnar Pálsson léku og sungu við góðar undirtektir á tónleikunum.

Sverrir Bergman og Halldór Gunnar

 

Borgarvirki er klettaborg á ásunum milli Vesturhóps og Víðidals, og er 177 metra yfir sjávarmáli. Borgarvirki er gosstapi með 10–15 metra háu stuðlabergslagi efst. Það myndaðist við eldgos á hlýskeiði ísaldar en þá rann grágrýtislag út Víðidal.

Efst í virkinu er skeifulaga dæld, um 5–6 metra djúp og er eitt skarð út úr því að austanverðu. Þar er grjótveggur mikill en víðar á virkinu eru hlaðnir grjótveggir sem margir voru fallnir. Á árunum 1940–1950 voru þessar hleðslur lagaðar.

Inni í virkinu eru rústir af tveimur skálum og skammt frá þeim samanhruninn brunnur sem í eina tíð hefur verið nothæfur.

Ekki er vitað hver byggði í Borgarvirki en hugsanlega hefur það verið Barði Guðmundsson frá Ásbjarnarnesi sem átti í deilum við Borgfirðinga og frá er sagt í Heiðarvíga sögu. Önnur tilgáta er sú að virkið hafi verið héraðsvígi á landnámsöld og að það hafi verið notað sem slíkt eitthvað fram eftir.

Samkvæmt sögnum var Borgarvirki nýtt sem virki á þjóðveldisöld. Segir sagan að þar hafi Víga-Barði Guðmundsson í Ásbjarnarnesi verið á ferð. Hann deildi við Borgfirðinga eins og segir frá í Heiðarvíga sögu. Sagt er að óvinir hans hafi komið að sunnan með óvígan her.  En Barða bárust af því njósnir og kom sér og sínum mönnum fyrir í Borgarvirki, þar sem ómögulegt reyndist að sækja að honum. Tóku Borgfirðingar á það ráð að ætla að svelta Barða og hans menn inni. Þegar matinn þraut tóku virkisbúar sig til og hentu síðasta mörsiðrinu (sláturkeppnum) út úr virkinu. Voru þá Borgfirðingar vissir um að Barði hefði nægar vistir og héldu heim á leið. Frábært útsýni er úr Borgarvirki og þar hefur verið sett upp útsýnisskífa.

Tónleikagestir í Borgarvirki

 

Mannfjöldi var mikill

 

Sumir létu fara vel um sig

 

.

 

.

 

.

 

Þarna var fólk á öllum aldri

 

Umferðin gekk vel þótt margir væru bílarnir

 

.

 

.

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir frá tónleikum: Kristín Sigurjónsdóttir
Forsíðumynd: Gunnar Ægir Björnsson
Heimildir um Borgarvirki: Wikipedia