Áratugum saman hafa fuglaáhugamenn á Siglufirði hlúð að fuglalífinu í firðinum með þeim árangri að þar er fjölskrúðugt fuglalíf og mikið æðarvarp.

Í bókun bæjarráðs Fjallabyggðar þann 7. júlí s.l. er bókað í tveimur fundarliðum ( 5.og 6. )

Bæjarráð samþykkir að bjóða út alla dúntekju í landi Fjallabyggðar og að samningur verði gerður við aðila um að girða svæði af, halda vargi frá varplandi og annast umhirðu varpsvæðis.

Mynd: KRB

Örlygur Kristfinnsson – sem hefur frá 1983 unnið að því að byggja upp og hlú að æðarvarpi á Granda og Áróslóni austan fjarðar – sendi bréf til bæjarráðs, en þar segir meðal annars:

Þetta mikla varp innan skipulagðra kaupstaðarmarka er einstakt á Íslandi og er hluti af gríðarmiklu fuglalífi fjarðarins. Mikilvægt að þessi staðreynd sé viðurkennd og að það geti gert staðinn aðlaðandi fyrir heimafólk og ferðamenn ef rétt er á haldið – (stundum er sagt að náttúran auki fólki lífsgæðin).

Í bréfi Örlygs kemur einnig fram að honum var boðið að annast dúntekju á Leirutanga Siglufirði í maí s.l.

Það hljómar e.t.v. mótsagnakennt að á sama tíma og einn er beðinn að annast dúntekjuna er ákveðið að bjóða hana út.

Trölli.is hafði samband við Örlyg til að fá nánari upplýsingar um hans sýn á málið og fékk um hæl eftirfarandi svar:

Það var Ólafur Guðmundsson sem kom til mín í vor og bað mig að hirða dún á Leirutanga því hann treysti sér ekki til að gera það lengur – hann sagðist vilja fá einhvern sem kynni til verka.

Það hljómar nokkuð undarlega að bæjarráð ætli sér “að bjóða út alla dúntekju í landi Fjallabyggðar”.

Mynd: KRB

Í fyrsta lagi er mikilvægt að þetta heiti umsjón með fuglavarpi eða varplöndum – ella mætti líta svo á að þetta snerist aðeins um að hirða dúninn og afla sér tekna á auðveldan hátt. En vonandi átta bæjarstjórnendur sig á að málið er ívið flóknara.

Svo er það hitt að að baki hins mikla æðarvarps í firðinum er mikil vinna einstaklinga um áratugi og þeir hafa í höndum formleg og skrifleg leyfi til að annast fuglalífið á tilteknum svæðum á Siglufirði.

Varla verður rokið til og einhverjum dúntekjumönnum úr Fljótum eða annarstaðar frá verði afhent svæðin sísona og án einfaldrar tillitssemi eða samráðs við þetta heimafólk. Fyrir liggur erindi hjá Fjallabyggð frá manni í Fljótum þess efnis að hirða dún á Leirutanga.

Bréf Örlygs til Fjallabyggðar má sjá hér að neðan.

Myndir/Steingrímur Kristinsson og KRB