Þriðjudaginn 5. júní  komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar í því skyni að huga að veðurhorfum í júní mánuði. Að venju var farið yfir eftirfylgni síðustu veðurspár og voru spámenn ágætlega sáttir með hvernig til hefði tekist. Sem betur fer varð þó minna úr Hvítasunnuhreti en spáð hafi verið fyrir um.

Nýtt tungl kviknar 13. júní kl. 19:43 í vestri og er það miðvikudagstungl.  Gert er ráð fyrir að veður verði svipað  og  verið hefur undanfarið, þó má búast við þokulofti og heldur kaldara veðri. Um eða upp úr 20. júní  má reikna með góðum kafla, sem standi út mánuðinn.

Veðurklúbburinn tekur sér frí í júlí, en vill þó láta þess getið að í júlímánuði verði heilt yfir ágætis veður.

Veðurvísa mánaðarins
Í júní sest ei sólin,
þá brosir blómafjöld.
Í júlí baggi er bundinn
og borðuð töðugjöld.

Með góðri sumarkveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ

 

Frétt fengin af vef: Dalvíkurbyggðar
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir