Fjallabyggð hefur nú málað tákn hinsegin fólks á gangbrautir í Ólafsfirði og Siglufirði til að fagna fjölbreytileikanum.
Á forsíðumynd má sjá þá félaga Mark og Sigurjón mála gangbrautina á Siglufirði, fyrr um daginn var málað á gangbraut í Ólafsfirði.
Á vefsíðu hinsegin daga má finna þennan fróðleik um Gay Pride hátíðina.
Á Íslandi héldu lesbíur og hommar í fyrsta sinn út á götur síðasta laugardag í júní 1993 og síðan árið eftir. Hlé varð á þeim samkomum þar til í júní 1999 þegar haldin var útihátíð að viðstöddum 1.500 gestum á Ingólfstorgi, þar sem þess var minnst að 30 ár voru liðin frá Stonewall uppreisninni.
Það var svo ári síðar, árið 2000, sem fyrsta gleðigangan var gengin í Reykjavík og upp frá því hafa Hinsegin dagar vaxið og dafnað með ótrúlegum hraða. Í dag eru Hinsegin dagar í Reykjavík sex daga hátíð menningar, mannréttinda og margbreytileika.
Hinsegin dagar í Reykjavík eru sjálfstæð sjálfboðaliðasamtök. Þau halda aðalfund síðla árs en milli aðalfunda er félaginu stjórnað af sjö manna stjórn sem starfar náið með samstarfsnefnd félagsins.
Öll þau sem vilja vinna að málefnum hinsegin fólks, svo og félagasamtök þeirra, eru velkomin til starfa í samstarfsnefnd en saman vinnur sá hópur að skipulagningu hátíðarinnar. Sjá nánar í félagslögum Hinsegin daga.