Með fundarboði 257. fundar bæjarstjórnar Fjallabyggðar fylgdi ársreikningur Fjallabyggðar fyrir árið 2024 ásamt sundurliðun.
Á fund bæjarstjórnar kom Þorsteinn G. Þorsteinsson, endurskoðandi sveitarfélagsins frá KPMG og fór hann yfir helstu niðurstöður úr ársreikningi.
Settur bæjarstjóri, Þórir Hákonarson, tók til máls á fundinum.
Rekstrarniðurstaða jákvæð og litlar skuldir.
Samkvæmt framlögðum ársreikningi er rekstrarniðurstaða samstæðu A- og B-hluta jákvæð um 63,9 millj. kr. sem er talsvert betra en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir en áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að upphæð 0,6 millj. kr.
Langtímaskuldir sveitarfélagsins við lánastofnanir nema 134,3 millj. kr. sem er með því lægsta sem gerist á landinu. Það þýðir um það bil 68 þús. krónur á hvern íbúa.
Rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 148,7 millj. kr. en var um 81,7 millj. kr. árið 2023. Fjárfesting ársins nam 653,0 millj. kr. Handbært fé A- og B-hluta nam 239,9 millj. kr. í árslok og lækkar umtalsvert m.a. vegna framkvæmda á skíðasvæði í Skarðsdal og við vatnsveitu.
Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 4.918,5 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta 4.237,9 millj. kr.
Rekstur sveitarfélagsins var nokkuð stöðugur á árinu, líkt og undanfarin ár. Rekstur málaflokka var almennt innan fjárhagsáætlunar þrátt fyrir verðbólgu og aðra óvissuþætti.
Helstu frávik frá útgjöldum voru í málaflokknum umferðar- og samgöngumál eða um 20% og munar þar mestu um verulega gjaldaaukningu vegna snjómoksturs. Tekjur sveitarfélagsins voru nokkuð hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en það má helst rekja til aukinna framlaga frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Til máls tóku þau, S. Guðrún Hauksdóttir, Arnar Þór Stefánsson, Guðjón M. Ólafsson, Tómas Atli Einarsson og Helgi Jóhannsson.
Bæjarstjórn samþykkir framlagðan ársreikning 2024 með 7 atkvæðum og vísar honum til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 15. maí nk.