Matvælastofnun vekti athygli neytenda á innköllun framleiðandans Birkihlíðar í Skagafirði á heimaslátruðu lambakjöti sem selt var á bændamarkaði á Hofsósi 30. sept. sl. Ástæða innköllunar er að slátrun fór ekki fram í viðurkenndu sláturhúsi og heilbrigðisskoðun var ekki framkvæmd af opinberum dýralækni.

Á fundi Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra þann 13. nóvember var málið tekið fyrir og forstjóri MATÍS kom á fundinn og skýrði frá aðkomu MATÍS að markaðnum.

Heilbrigðisnefnd álítur að almennt hafi tekist vel til með Bændamarkaðinn sem MATÍS stóð fyrir á Hofsósi sl. sumar, en engin kvörtun eða athugasemd barst frá neytendum vegna matvæla sem voru á boðstólnum á Hofsósi.

Það er miður að það frávik hafi átt sér stað, að til sölu hafi verið óheilbrigðisskoðaða kjöt á Bændamarkaðnum. Farið er fram á að Bændamarkaður MATÍS verði framvegis starfræktur í samræmi við lög og reglur.

Nú stendur yfir vinna á vegum Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga við að endurskoða reglur og eftirlit með “beint frá býli” en æskilegt væri að nýta reynsluna af starfrækslu Bændamarkaðarins á Hofsósi í þeirri vinnu.

 

Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir