Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands – Rekstur ársins 2020 í jafnvægi
- Jafnvægi í rekstri. 37,5 milljóna halli sem nam 0,5% af veltu
- Nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili á Húsavík sett í hönnun
- Covid-19 fjárframlag upp á 200 milljónir m.a. nýtt til að bæta aðstöðu á Fjallabyggð og á Húsavík
- Tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri á beinu brautinni
- Innleiðing rafrænna ferla og upplýsingatækni fyrir bæði starfsfólk og skjólstæðinga (rafrænt innlit í heimahjúkrun)
- Jafnlaunavottun komið á með innleiðingu jafnlaunakerfis
Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) var haldinn fimmtudaginn 23. september 2021. Helstu niðurstöður rekstrarársins 2020 eru þær að rekstur stofnunarinnar var að mestu í jafnvægi á árinu, en stofnunin var rekin með 37,5 milljóna króna halla sem nam 0,5% af veltu.
Á rekstrarárinu var hafist handa við að hanna nýtt 60 rýma hjúkrunarheimilis á Húsavík. Þá fékkst sérstakt fjárfestingarframlag vegna Covid-19 upp á 200 milljónir sem var nýtt til að standsetja 5 ný herbergi á legudeild sjúkrahússins í Fjallabyggð sem mun bæta alla aðstöðu til mikilla muna. Þá nýtist féð einnig til að klára nýtt stigahús við sjúkrahúsið á Húsavík. Framkvæmdaskýrsla ríkisins sendi frá sér fullbúna frumathugunarskýrslu fyrir tvær heilsugæslustöðvar á Akureyri á árinu en með því er endurnýjun húsnæðis heilsugæslunnar á Akureyri komin á beinu brautina. Lögð var sérstök áhersla á innleiðingu rafrænna ferla í starfi og upplýsingatækni. Þá hlaut HSN jafnlaunavottun á árinu.
“Á árinu 2020 var rekstur HSN markaður af baráttunni við Covid-19 sem hafði margvísleg áhrif á starfsemina,“ sagði Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN. „Verkefnið hófst með alvarlegu atviki á Húsavík þar sem ungur ferðamaður lést og setti 21 starfsmann í sóttkví. Frá þeim degi breyttist starfsemin og við tóku víðtækar breytingar á henni. Fjöldi starfsmanna sinnti vinnu heiman frá sér, starfshópum var skipt upp, heimsóknarbann sett á legudeildir og fjölmargar hamlandi reglur settar upp. Meginverkefnið var þó að halda uppi þjónustu þrátt fyrir allar þessar hömlur. Ekki er hægt að segja annað en það hafi tekist vel því flestar niðurstöður sýna aukna þjónustu á árinu. Er það fyrst og fremst að þakka góðu starfsfólki sem vann þrekvirki að halda uppi öflugri heilbrigðisþjónustu við krefjandi aðstæður.”
Eftirfarandi kom einnig fram á fundinum:
- Unnið var eftir nýrri stefnu HSN sem kynnt var á árinu en svigrúm til nýrra verkefna var auðvitað minna vegna Covid-19.
- Unnið var áfram að uppbygginu lífsstíls- og sykursýkimóttöku sem hefur það hlutverk að taka þátt í að byggja upp og samræma heilsueflandi móttökur á HSN með sérstaka áherslu á sykursýki.
- Unnið að uppbyggingu heilsueflandi heimsókna á starfstöðvum HSN.
- Mikil aukning var í starfsemi geðheilsuteymis sem átti sitt fyrsta heila starfsár. Nauðsynlegt er að styrkja teymið enn frekar á næstu árum.
- Mikil aukning var á rafrænum samskiptum milli áranna enda árið markað af Covid faraldrinum.
- Stofnunin lagði áherslu á innleiðingu rafrænna ferla og upplýsingatækni fyrir bæði starfsfólk og skjólstæðinga, m.a. með myndrænu innliti til þjónustuþega heimahjúkrunar.
Ársskýrslu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands má hlaða niður hér, smellið hér.