Tónleikar nr. 40 verða í beinni útsendingu á FM Trölla á morgun gamlársdag kl. 13

Í ár eru liðin 40 ár síðan tónlistarferill Þórarins Hannessonar, Tóta kennara, hófst. Það var árið 1978, fermingarár hans, og voru fermingarpeningarnir nýttir til að kaupa trommusett. Í kjölfarið var stofnuð hljómsveit, kallaðist hún Brestur og spilaði á nokkrum skólaböllum vestur á Bíldudal. Á næstu árum var Tóti í nokkrum hljómsveitum, sem trommuleikari og söngvari, og hóf síðan að glamra á gítar og setja saman lög og texta. Á þessum 40 árum hefur hann komið fram yfir 1200 sinnum víða um land til að flytja tónlist, gefið út 5 geislaplötur með eigin efni og starfað með ýmsu tónlistarfólki.

Í tilefni af þessum tímamótum fékk Tóti þá frumlegu hugmynd að halda 40 tónleika á árinu, eina fyrir hvert ár. Á þessum tónleikum mundi hann eingöngu flytja sín eigin lög. Hugmyndin fæddist um miðjan mars og voru fyrstu tónleikarnir haldnir skömmu síðar. Flestir tónleikarnir hafa farið fram á ýmsum stöðum á Siglufirði s.s. Ljóðasetrinu, sjúkrahúsinu, Iðjunni, Skálarhlíð, Kveldúlfi, Torginu, leikskólanum og fleiri stöðum, nokkrir tónleikar voru í Ólafsfirði og einnig var hann með tónleika á Akureyri, Bíldudal, Tálknafirði og í Haukadal í Dýrafirði. Hafa gestir á þessum tónleikum verði samtals tæplega 1000 og hefur Tóti flutt um 120 af sínum 230 lögum.

Og nú er komið að lokatónleikunum, tónleikum nr. 40, og verða þeir í beinni útsendingu fyrir alla heimsbyggðina kl. 13.00 á gamlársdag á FM Trölla. Mun Tóti leika og syngja í um klukkustund, segja sögur af ferlinum og sögurnar á bak við lögin.

Tóti hefur einnig haldið úti síðu á fésbókinni, sem kallast 40 ár – 40 tónleikar, þar sem hann hefur flutt fréttir af tónleikabröltinu og rifjað upp eitt og annað af tónlistarferlinum.

Hægt er hlusta á FM Trölla um alla heimsbyggð: HÉR

 

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá tónlistaferli Tóta.

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

Myndir: úr einkasafni